Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:49:10 (6290)

2004-04-14 15:49:10# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn, vil leiðrétta hins vegar það sem hann sagði um að hugsanlega hefðu fáir hugsað til leikskólanna þegar verið væri að ræða um skólagjöld.

Það vill svo til að það er einn stjórnmálaflokkur í landinu, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, sem var með þetta sem meginatriði á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar og það er ekki mjög langt síðan þær voru haldnar. Það var útfærð hugmynd af hálfu míns flokks um hvernig ríkið og sveitarfélög gætu farið í sameiginlegt átaksverkefni til þess að af þessu gæti orðið. Þar vorum við með ákveðna útfærslu í huga sem gerði reyndar ekki ráð fyrir 2,4 milljörðunum frá hendi ríkisins heldur mun lægri upphæð en ákveðnu samspili milli ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum.

Það er mikið rætt um tímaskekkju þessa dagana og það er deginum ljósara að ef eitthvað er tímaskekkja í skólakerfinu eru það skólagjöld á leikskólum. Því verður að breyta. Mér þykir reyndar ekki gott að heyra hæstv. menntmrh. tala um það hér að ekki séu efnahagslegar forsendur til að gera slíkt. Ég veit að á tímum skattalækkana er það erfiðara en engu að síður erum við rík þjóð og við eigum að geta aflétt skólagjöldum af foreldrum leikskólabarna.