Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:53:17 (6293)

2004-04-14 15:53:17# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gat um höfðum við, vinstri græn, þetta sem eitt af meginkosningamálum okkar, þ.e. að vinna að gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum. Við sögðum að það væri mannréttindamál, uppeldismál, jafnréttismál og tekjujöfnunarmál, líka menntamál þar sem leikskólakennarar eru eins og aðrir kennarar hluti af kennarahópnum.

Það er því gleðilegt að við skulum hafa fengið því áorkað að Samf., með hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson í broddi fylkingar, hafi fallist á meginþátt þessa máls sem við höfðum sem kosningamál. Baráttan er ekki til einskis, baráttan er greinilega á góðum vegi. Ég treysti því að við vinnum brátt hæstv. menntmrh. til fylgis við mál okkar og þá verður björninn unninn.