Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:54:28 (6294)

2004-04-14 15:54:28# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Kópavogslistinn, síðar Samf. í Kópavogi, setti fram tillögur um útfærslu á gjaldfrjálsum leikskóla í kosningunum 1998 og síðan kosningunum 2002 og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég held nefnilega að tillagan sýni vissa framsýni. Ég held að það sé rétt sem hefur hér fram komið, að það sé á þennan veg sem leikskólinn hljóti að þróast og að í raun og veru væru skattalækkanir best komnar í því að ríkið tæki til sín hluta af kostnaðinum við leikskólann og létti þannig byrðunum af unga fólkinu.

Ég harma það að hæstv. menntmrh. hafi ekki tekið betur í málið en raun ber vitni. Þó að hér sé um mikinn kostnað að ræða ef allir árgangarnir eru teknir inn má auðvitað gera þetta í áföngum. Ég hygg að kostnaðurinn við að taka t.d. fimm ára börnin inn sé aðeins hluti af þessu og ég held að hæstv. menntmrh. verði að hafa í huga að þau börn sem ekki eru á leikskólum, og það er rétt hjá hæstv. menntmrh. að það yrði að vera skylda, eru trúlega börn þeirra sem höllustum fæti standa félagslega og mest þurfa á þroska leikskólans að halda.