Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:58:05 (6297)

2004-04-14 15:58:05# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Umræðan hér hefur líka verið ágæt.

Það verður þó að segjast eins og er að það kom mér nokkuð á óvart að hlusta á hv. þm. Helga Hjörvar ræða málið að því leytinu til að hann dró nokkuð í land frá fyrri orðum þar sem hann hefur talað um að það væri kjörið að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir fimm ára börn. Nú þekkir hv. þm., sem er líka varaborgarfulltrúi, og flestir hér inni sem standa að R-listanum að þetta er eitt af því sem R-listinn lofaði fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Lítið hefur væntanlega verið um efndir en þetta er á höndum sveitarfélaganna og allir þessir þingmenn sem hér eru inni, ef undan er skilinn hv. þm. Gunnar Birgisson, eru í R-listanum og þið væntanlega vitið það, hv. þingmenn, að það er kosningaloforð R-listans að koma með gjaldfrjálsan leikskóla, í það minnsta að hluta til fyrir fimm ára börn.

Ég átta mig ekki alveg á hvert þessi umræða er að fara, frú forseti. (ÖJ: ... einhverja flokka ...)