Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 16:01:30 (6299)

2004-04-14 16:01:30# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í þessari vinsældakosningu um gjaldfrjálsan leikskóla sem hefur átt sér stað hér í þessum ágæta sal. Það er engu að síður umhugsunarefni þegar ágæt stjórnarandstaða knýr á um að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar sem eiga að koma til kasta á öllu þessu kjörtímabili komi allar til framkvæmda strax en síðan geta sumir flokkar sem standa að R-listanum ekki efnt loforð sín fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar strax. Þá er ég að tala um fimm ára á gjaldfrjálsan leikskóla. Það á að efna það einhvern tíma síðar á kjörtímabilinu, ég veit ekki hvenær.

En það er a.m.k. ljóst af þessari umræðu að hluti þeirra flokka sem standa að sveitarstjórnarmálum, m.a. hér í borginni, telur rétt að sveitarfélögin sjái til þess að leikskóli verði gjaldfrjáls. Ég er alveg sammála því. Ég er alveg sammála því að þetta heyri undir sveitarfélögin.

Það er hins vegar annað ef við komum að því atriði sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um og er m.a. í stefnuskrá Framsfl., um skólaskyldu fimm ára. Undir eins og við breytum því að skólaskyldan verði ekki lengur við sex ára aldur, heldur fimm ára erum við farin að tala um allt aðra hluti. Og þá er ósköp eðlilegt að það verði talað um að fimm ára börn þurfi ekki að greiða til skólans eins og gengur og gerist með sex ára börn.

Það er að mínu mati ljóst af þessari umræðu að menn eru klofnir í afstöðu sinni. Þeir segja eitt úti í Ráðhúsi og síðan annað hér, að mínu mati. Því miður er það þannig.

Ég vil enn og aftur ítreka að kostnaðurinn við að koma á gjaldfrjálsum leikskóla er 11,5 milljarðar kr. bara við uppbyggingu á húsnæði. Síðan er aukalega rekstur á ári 7,5 milljarðar. Þá dugar ekki að mínu mati, virðulegi forseti, að halda þessu skattstigi sem er í landinu og ekki einu sinni að láta sig dreyma um að lækka skattana, heldur erum við að tala um beinar skattahækkanir á fólk ef svo verður.