Endurgreiðsla námslána

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:00:44 (6300)

2004-04-14 18:00:44# 130. lþ. 96.11 fundur 706. mál: #A endurgreiðsla námslána# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. fjmrh. um afslátt og endurgreiðslu námslána. Forsaga þess er svokölluð byggðanefnd forsrh., sem skipuð var í aðdraganda kjördæmabreytingarinnar svokölluðu. Það var þverpólitísk nefnd sem skilaði tillögum sínum 10. febrúar 1999.

Þar sagði m.a. um fyrstu tillögur, sem kallaðar voru bráðaaðgerðir til jöfnunar lífskjara, með leyfi forseta:

,,Árlegur afsláttur verður veittur af afborgunum og vöxtum námslána eftir tveggja ára fasta búsetu utan höfuðborgarsvæðisins samkvæmt skilgreiningu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Verði það gert með þeim hætti að endurgreiðsluhlutfall af tekjutengdri afborgun verði allt að einu prósentustigi lægra en það er að jafnaði á lánum lánasjóðs íslenskra námsmanna.`` --- Síðan er frekari útlistun á þessu.

Þetta voru tillögur þverpólitískrar nefndar sem skilaði samdóma áliti og naut m.a. stuðnings hæstv. forsrh. sem fjallaði í ræðustól Alþingis um að þessar þverpólitísku tillögur væru skynsamlegar og lofaði þeim stuðningi.

Þessar hugmyndir koma fyrst fram þarna árið 1999. Síðan kemur þetta mál aftur upp, þ.e. í byggðaáætlun, í hinni svokölluðu nítján línu byggðaáætlun sem er í gildi. Í greinunum sem þar fylgja er m.a. fjallað um endurgreiðslu námslána. Meginhugmyndin þar var að bjóða ungu fólki sem sest að á svæðum þar sem skortur er á fólki með háskólamenntun tímabundinn afslátt á endurgreiðslu námslána. Markmiðið er að hvetja ungt fólk með menntun á háskólastigi til að setjast að og starfa úti á landi og taka þannig þátt í uppbyggingu byggðarlaga þar sem vantar menntað fólk til starfa og byggja þar upp ný fyrirtæki.

Ábyrgð á þessari framkvæmd er í skýrslu hæstv. iðn.- og viðskrh., byggðamálaráðherra, sögð liggja hjá fjmrn. Í skýrslunni kemur fram að fjmrn. hafi unnið í samvinnu við Lánasjóð íslenskra námsmanna, aflað upplýsinga, m.a. frá Noregi, um reglur um afslátt frá endurgreiðslu námslána sem gilda fyrir háskólamenntað fólk sem býr í nyrstu héruðum Noregs og nokkrum svæðum þar í landi. Áfram er fjallað um þetta og lýst hvað gert hafi verið í þessu máli af hendi fjmrn., m.a. er rætt um það að þessar afsláttarreglur í Noregi séu töluvert flóknar o.s.frv.

Virðulegi forseti. Kveikjan að því að ég lagði svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. fjmrh. var að mig langaði að fá úr því skorið hvað gert hefði verið annað en það sem stendur í þessum tillögum.

Fyrirspurnin er svohljóðandi:

,,Hvað líður framkvæmd hugmynda um að bjóða ungu háskólamenntuðu fólki tímabundinn afslátt af endurgreiðslu námslána setjist það að á svæðum þar sem skortur er á háskólamenntuðu fólki, samanber markmið í byggðaáætlun?`` --- Þeirri byggðaáætlun sem ég las hér upp úr, virðulegi forseti.