Endurgreiðsla námslána

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:03:56 (6301)

2004-04-14 18:03:56# 130. lþ. 96.11 fundur 706. mál: #A endurgreiðsla námslána# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur reifað aðdraganda þess máls sem hér er gert að umtalsefni. Í skýrslu iðnrh. um framvindu fyrir árin 2002--2005 sem lögð var fyrir þetta þing, 130. löggjafarþing, er gerð grein fyrir athugun á tillögu í byggðaáætlun um afslátt frá endurgreiðslu námslána.

Í skýrslunni segir m.a. um tillöguna að meginhugmyndin sé að bjóða ungu fólki, sem sest að á svæðum þar sem skortur er á fólki með háskólamenntun, tímabundinn afslátt af endurgreiðslu námslána, eins og hv. fyrirspyrjandi rakti. Þar eru nánar tilgreind markmið þeirrar hugmyndar.

Sömuleiðis kom fram í máli fyrirspyrjanda að fjmrn., eins og fram kemur í skýrslunni, hefur unnið í samráði við Lánasjóð íslenskra námsmanna að því að afla upplýsinga um það kerfi sem mun vera við lýði í nyrstu héruðum Noregs og á nokkrum öðrum svæðum þar í landi. Hins vegar eru, eins og hér kemur fram, aðstæður í Noregi mjög frábrugðnar því sem er hér á landi.

Reglurnar varðandi þetta eru flóknar í Noregi og yrðu vafalaust mun flóknari hér og erfitt að gera upp á milli manna í þessu efni, eftir því hvar þeir eiga lögheimili, hvar á landinu fólkið stundar vinnu, á hvaða aldri það er, í hvaða skóla það hefur stundað nám, hvort það vinnur störf sem krefjast háskólamenntunar eða ekki o.s.frv. Síðan hefur ekki verið lagt mat á hugsanlegan ávinning eða kostnað af slíkum afsláttarreglum ef þær yrðu settar. En áfram er unnið að athugun á þessu máli.

Frá því að iðnrh. gaf út skýrslu sína á þessu þingi hefur það helst gerst í málinu að Lánasjóður íslenskra námsmanna setti í janúar af stað vinnu til að yfirfara og endurskoða forsendur fyrir útreikningum á framlagi ríkisins til sjóðsins. Fjmrn., menntmrn. og Ríkisendurskoðun eiga aðild að þessum hópi ásamt fulltrúum frá stjórn sjóðsins. Vonast er til að í tengslum við það starf sé hægt að afla frekari upplýsinga um forsendur til að reikna út mismunandi valkosti varðandi þá hugmynd sem hér er gerð að umtalsefni.

Ég vil segja til viðbótar, herra forseti, að sú hugmynd sem hér er rædd er ein af mörgum sem fram hafa komið til að styrkja byggðirnar úti á landi. Hún er athyglisverð en áreiðanlega erfið í framkvæmd. Það þarf að gæta að því í máli sem þessu að jafnvel þótt markmiðið sé gott og tilgangurinn sömuleiðis þá réttlætir það ekki að koma á fót óframkvæmanlegu kerfi sem býr til nýja mismunun, eins og hætta er á hvað varðar sérstaka afslætti frá endurgreiðslum þessara lána.

Ég segi því fyrir mitt leyti, herra forseti, að þó að við könnum þetta mál að sjálfsögðu með opnum huga þá sér maður í hendi sér ýmsa og jafnvel verulega annmarka á þessari hugmynd þegar kæmi að því að hrinda henni í framkvæmd.