Endurgreiðsla námslána

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:12:10 (6306)

2004-04-14 18:12:10# 130. lþ. 96.11 fundur 706. mál: #A endurgreiðsla námslána# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir nokkrum vonbrigðum með svör hæstv. fjmrh. í þessu máli. Ég bjóst við skýrari svörum en þessum. Þau voru óskaplega loðin. Hann talaði m.a. um að reglurnar í Noregi væru svo flóknar og að liggja þyrfti vel yfir þessu máli, undirbúa vel á alla kanta o.s.frv.

Ég fór á netið í dag og skoðaði hvernig þetta er gert í Noregi. Það er ekkert voðalega flókið. Í Noregi er það þannig að í nyrsta fylki Noregs, Finnmörku og síðan Norður-Troms, sem er norðurhluti næstnyrsta fylkis Noregs, getur fólk fengið 10% afslátt af upphaflegu námsláni eða að hámarki í kringum 170 þús. kr. á ári, hafi það unnið á þessum svæðum í tólf mánuði.

Þetta er megininntakið í þessum reglum. Ég veit það sjálfur að þetta hefur lánast mjög vel hjá Normönnum. Þetta hefur valdið því að ungt fólk sækir norður í þessi héruð, barnafjölskyldur setjast þar að, sjálfum sér til heilla og viðkomandi byggðarlögum. Ég tel að þessi hugmynd sé fyllilega þess virði að skoða hana.