Afsláttur af þungaskatti

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:26:22 (6312)

2004-04-14 18:26:22# 130. lþ. 96.12 fundur 762. mál: #A afsláttur af þungaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þær upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. ættu að vera vinstri mönnum og þeim sem óska eftir því að setja alltaf ný og fleiri og réttlátari ákvæði í skattalög víti til varnaðar. Ákvæðin eru bara ekki notuð, annaðhvort vegna þekkingarleysis, vegna þess að hinn almenni borgari þekkir þau ekki, eins og hv. þm. sjálfur, hann var mjög undrandi á þessu svari, eða þá að það er svo dýrt að nýta þau að það nýtir þau enginn.

Ég vara við því að menn séu alltaf að hlaupa á eftir réttlætinu á þennan hátt og gera öll lög svo flókin að almenningur getur ekki lengur lifað við þau og veit ekkert af öllum sínum rétti. Því miður er allt of mikið um það í bóta- og skattalögum á Íslandi.

En ég vil benda á að það er komin ný tækni núna sem ég ræddi í sambandi við olíugjaldið, sem hugsanlega leysir allan þennan vanda. Þar má taka mismunandi gjald fyrir malarvegi, mismunandi gjald þegar snjóþungt er, lægra gjald á fjallvegi og vegi sem ekki eru með ofaníburði o.s.frv. Og svo þegar komnar eru þungatakmarkanir er hægt að taka sérstakt og lágt gjald og allt sjálfvirkt.