Afsláttur af þungaskatti

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:27:38 (6313)

2004-04-14 18:27:38# 130. lþ. 96.12 fundur 762. mál: #A afsláttur af þungaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Sú staðreynd er alveg makalaus að ríkið hefur stöðugt gert fjarlægðir innan lands að sérstökum skattstofni þannig að því lengra sem þarf að fara, sækja vinnu eða flytja vörur á milli landshluta, þá eykst ekki aðeins hinn beini kostnaður sem af því hlýst heldur þarf þar líka að vera sérstakur skattstofn og hár skattstofn af hálfu ríkisins. Þetta er afar óréttmætt og mun lítið breytast þó svo að breytt verði yfir í olíugjald og mér óar við allri þeirri tækni ef vera á hópur og her manns að fylgjast með mælum sem fylgja farartækinu eftir daglega.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður störfum nefndar sem lofað var að lyki störfum fyrir síðustu kosningar, sem átti að taka á því að jafna flutningskostnað og jafna samkeppnisstöðu í búsetu og sérstaklega atvinnuvega, atvinnugreina og fyrirtækja vítt og breitt um landið? (Forseti hringir.) Hvað líður störfum þeirrar nefndar sem átti að vera löngu búin að skila af sér?