Afsláttur af þungaskatti

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:28:58 (6314)

2004-04-14 18:28:58# 130. lþ. 96.12 fundur 762. mál: #A afsláttur af þungaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. fjmrh. las upp ákvæðin sem eru til að gefa þann afslátt sem ég er að spyrja um.

Ég hygg að það sé rétt hjá Pétri H. Blöndal að það séu ekki allir, og á það ekkert endilega við um vinstri menn frekar en hægri menn --- ég átta mig ekki á þeirri skilgreiningu --- klárir á því að slík heimild sé fyrir hendi. Það getur vel verið að menn telji að hún sé flókin í framkvæmd en ég hygg að það sé miklu frekar að menn hafi ekki áttað sig á henni.

Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. og áminningu um hvernig þetta er í lögunum. Ég hvet því flutningsaðila til að nýta sér lögin sem hér er verið að vitna til og nota þann afsláttarmöguleika sem er og sækja sér þar rétt sinn til ríkisskattstjóra og þeirra sem fylgjast með þungaskatti þegar næsta birting kemur sem verður eitthvað í þessa veru þar sem Íslandskortið er þakið umferðarmerkjum sem tilkynna um þungatakmarkanir.

[18:30]

(Gripið fram í.) Svo eru aðrir staðir þar sem þungatakmarkanirnar eru meiri, t.d. á malarvegum og hálfgerðum moldarvegum, eins og Pétur H. Blöndal minntist á. Það eru margir vegir svoleiðis og um þá þarf líka að flytja vöru. Þar væri því kannski hægt að sækja enn meiri afslátt.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. fjmrh. fyrir þetta svar og þessa ábendingu og hygg að hún verði notuð vel.

Varðandi hitt atriðið sem hann gerði að umtalsefni, þ.e. olíugjaldið sem við áttum hér miklar og góðar umræður um um daginn, þá er það alveg rétt. Ég ítreka það sem ég sagði þar að ákveðnir kostir eru við það en einnig mjög margir ókostir. Mesti ókosturinn er sá --- og skal ég segja það einu sinni enn vegna þess að kannski fæ ég ekki tækifæri næstu daga til þess ef þetta mál kemur á dagskrá --- það versta er að hæstv. fjmrh. er að festa þar í sessi gjaldstofn á olíugjald og kílómetragjald á flutningabíla, sem er 45% hækkun á greiðslu þungaskatts frá árinu 1998 á flutningabílum (Forseti hringir.) sem keyra 120 þús. kílómetra eða meira á ári. Það er það allra versta (Forseti hringir.) við þetta frv. vegna þess að það er allt sniðið utan um þær tekjur sem hæstv. fjmrh. (Forseti hringir.) plokkar og eru svo ósanngjarnar.