Virðisaukaskattur af áskrift að netmiðlum

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:48:09 (6322)

2004-04-14 18:48:09# 130. lþ. 96.14 fundur 861. mál: #A virðisaukaskattur af áskrift að netmiðlum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er rétt að svara spurningunni strax. Það hefur ekki komið sérstaklega til álita að gera þá breytingu sem hv. þm. spyr um. Málið hefur komið til kasta ráðuneytisins að því leyti að borist hefur erindi um þetta mál. Því hefur verið svarað á grundvelli gildandi laga sem eru alveg fortakslaus. Því erindi var hafnað. Um er að ræða þjónustu sem ber 24,5% virðisaukaskatt, er sem sagt í almenna skattþrepinu. Það er vegna þess að undanþáguprósentan er skýrt afmörkuð og endanlega upptalin. Í lögunum eru þeir þættir þjónustu og vöru sem undir það þrep falla taldir upp og því ekki um það að ræða að veita þessar undanþágur öðruvísi en með lagabreytingu.

Þá kem ég að því sem e.t.v. er kjarni málsins. Í stjórnarsáttmálanum er fyrirheit gefið um að endurskoða virðisaukaskattskerfið á kjörtímabilinu og með hagsmuni almennings fyrir augum. Þar hafa menn m.a. talað um að lækka lægra þrepið í virðisaukaskatti sem nær til matvæla og þeirra þátta sem hv. þm. rakti áðan. En þótt ekki sé sérstaklega að því vikið í stjórnarsáttmálanum að breikka eigi þrepið eða víkka það út þá kemur það að sjálfsögðu til athugunar ef farið verður í meiri háttar endurskoðun á þessu kerfi.

Þannig stendur þetta mál. Ef talið verður eðlilegt að gera breytingu varðandi þetta tiltekna atriði þá er það rétti vettvangurinn, þegar kemur að því að gera þessa endurskoðun. Ég tel svo vera. Hins vegar hefur ekki staðið til að fara einangrað eða sjálfstætt í þá breytingu sem hér er spurt um.