Aldurstengd örorkuuppbót

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:08:32 (6333)

2004-04-14 19:08:32# 130. lþ. 96.17 fundur 837. mál: #A aldurstengd örorkuuppbót# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin en ég vil spyrja hann, af því að það kemur skýrt fram í máli hans að ótímabært sé að gefa yfirlýsingar um að þessi réttindi falli ekki niður við 67 ára aldur, hvort þessu bréfi Öryrkjabandalagsins hafi þá verið svarað, hvort það liggi þá fyrir að ráðherrann ætli sér ekki að gera neitt í málinu. Skil ég hæstv. ráðherra rétt með því að hann segir að það eigi að skoða reynsluna af þessu á miðju ári og þá eigi að meta hvort hægt sé að taka inn yngri öryrkjana, þ.e. þá sem ekki fá núna aldurstengda örorku 16 og 17 ára? Mér fannst það liggja í máli hæstv. ráðherra og það væri mjög gott að fá það fram ef svo er.

Ég lýsi auðvitað yfir óánægju minni með það ef það er út af borðinu að greiða aldurstengda örorku eftir 67 ára aldur og spyr ráðherra nánar um það. Er það mál bara í athugun eða er það út af borðinu að mati ráðherrans? Og eru það þá fyrst og fremst hinir yngri öryrkjar, 16 og 17 ára, sem ráðherrann vill skoða ef það verður niðurstaða matsins sem á að gera um mitt næsta ár að svigrúm sé til þess að bæta þeim hópi við sem mér finnst alveg sjálfsagt? Ég skil ekki af hverju 16 og 17 ára ungir öryrkjar ættu ekki að fá aldurstengda uppbót. Hefur verið skoðað hvað kostar að bæta við þeim hópi, þ.e. þessum 16--17 ára ungu öryrkjum?

Það er auðvitað áhyggjuefni að fjölga skuli í hópi ungra öryrkja. Er einhver sérstök skýring á því að í hópi ungra öryrkja fjölgi um 3% á tveim eða þremur mánuðum? Það er ansi mikil fjölgun á svo stuttum tíma.

Ég vænti þess að ráðherrann svari því sem ég beindi til hans í seinni ræðu minni.