Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:35:51 (6345)

2004-04-14 19:35:51# 130. lþ. 96.20 fundur 834. mál: #A sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:35]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. landbrh. hvort til standi að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins og í öðru lagi hvort farið hafi fram undirbúningsvinna að slíkri sameiningu. Að mínu mati og margra mati mælir margt með því að sameina eigi Landgræðsluna og Skógræktina. Stofnanirnar eru um margt líkar og vinna að svipuðum markmiðum og voru upphaflega ein og sama stofnunin og störfuðu lengi eftir sömu lögum. Við sameiningu yrði til stór og öflug stofnun. Reyndar mætti einfalda hana, t.d. með því að taka verkefnið ,,Bændur græða landið`` og sameina það landshlutabundnum skógræktarverkum. Nýja stofnunin mundi þá hafa eftirlit með framkvæmdaraðilum og stunda rannsóknir og þróun samhliða því.

Samnýta mætti krafta beggja stofnananna sem mundi án vafa skila sér í skilvirkara starfi með margvíslegum og jákvæðum hætti. Stofnanirnar ráða yfir tækjum og tólum sem yrðu samnýtt og margs konar hagræði mætti hafa af sameinaðri og öflugri stofnun til hvers konar landgræðslu og skógræktar. Sem dæmi má nefna að Skógræktin ræður yfir yfirgripsmikilli þekkingu hvað varðar uppgræðslu með trjágróðri en fullyrða má að skógrækt sé afar góð og varanleg landgræðsla og jafnvel ein sú besta. Þá mundi samvinna sérfræðinga hjá stofnunum aukast, þekkingarflæði yrði meira á báða vegu og sú mikla sérfræðiþekking sem tilheyrir stofnununum nýttist betur ef kraftar þeirra lægju að fullu saman. Stofnanirnar vinna að svipuðum verkefnum á sömu svæðum, t.d. í Þórsmörk, og þurfa báðar að senda aðila er varða þau svæði á fundi þegar samningagerð stendur yfir o.fl. Báðar stofnanirnar vinna að rannsóknum á svipuðum sviðum, báðar stunda frærækt, spíruprófanir á fræi og fleiri slík dæmi mætti nefna um skörun sem þýðir bæði óhagræði og tímasóun.

Í því samhengi má einnig nefna að stofnanirnar þurfa báðar að skila af sér skýrslu varðandi alþjóðlegar skuldbindingar, t.d. um bindingu kolefnis í gróðri, trjágróðri eða landgræðsluplöntum. Þá má nefna að mjög mikil samvinna og góð er nú þegar í gangi á ýmsum sviðum þessara tveggja stofnana. Sú samvinna yrði einfaldari eftir sameiningu. Samvinnan felst í uppgræðslu og rannsóknum á skógrækt, landgræðslu, samnýtingu á tækjum, sameiginlegum fræðsluráðstefnum, samvinnu í kortagerð og áætlunum og samvinnu varðandi fræðslu. Draga má hagnýtingu sameiningar í eftirfarandi staðhæfingar: Það yrði meiri landgræðsla og skógrækt í landinu, nýjar og öflugar aðferðir kæmu til sögunnar, aukin kynning á kostum og mikilvægi skógræktar og landgræðslu færi fram og síðast en alls ekki síst aukið fjármagn, t.d. í formi rannsóknarstyrkja, og meiri líkur eru hjá stærri og öflugri stofnun að ná sér í styrki utan landsteinanna, t.d. Evrópustyrki ýmiss konar. Því beini ég áðurnefndri fyrirspurn til hæstv. landbrh. hvort slík sameining standi fyrir dyrum.