Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:48:01 (6350)

2004-04-14 19:48:01# 130. lþ. 96.20 fundur 834. mál: #A sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:48]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með þeim sem töluðu á undan mér að ég fagna vilja hæstv. landbrh. til að skoða sameiningu þessara tveggja öflugu og mikilvægu stofnana í þjóðlífi okkar og landbúnaði. Ég skora á hann að gefa í, hrinda slíku ferli í gang og láta verða af því á næstunni að koma því í fastar skorður og vinnuferli að sameining þessara tveggja stofnana megi eiga sér stað hið fyrsta.

Það má geta þess til fróðleiks og skemmtunar að eins og ég gat um áður var þetta upphaflega ein stofnun. Haft er eftir fróðum mönnum um málið, þegar leitað hefur verið skýringa á því af hverju þetta séu tvær stofnanir, að ein ástæðan og sú helsta sé að danskur skógræktarstjóri, Kofoed Hansen, og íslenskur undirmaður hans, Gunnlaugur Kristmundsson, hafi ekki átt skap saman. Fyrstu skógræktarlögin kváðu á um að skógræktarstjóri hefði á hendi yfirumsjón með ráðstöfunum til varnar sandfoki og skógarverðir áttu að taka þátt í slíku starfi og mátti fela þeim athugun á og skrásetningu sandfokssvæða og eftirlit með framkvæmdum. Þessi tengsl skógræktar og landgræðslu héldust allt fram til ársins 1914 þegar samþykkt voru sérstök lög um það sem þá hét sandgræðsla.

Nú er kominn tími til að snúa blaðinu við og beita sér fyrir því að þessar stofnanir renni saman á ný, tæpri öld síðar. Ósætti þessara tveggja manna er horfið enda þeir ekki lengur á meðal okkar. Það er ástæða til að fagna því að hæstv. landbrh. taki vel í málið. Þeir þingmenn sem hér hafa tekið til máls hafa lýst yfir stuðningi við að Landgræðslan og Skógræktin renni saman í eina stofnun þannig að vilji þingheims virðist renna í sama farvegi og væntingar ráðherra. Ég skora því á hann að beita sér fyrir þessu brýna máli.