Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:50:15 (6351)

2004-04-14 19:50:15# 130. lþ. 96.20 fundur 834. mál: #A sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er furðulegt að hlusta á skapgerð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í dag sem lætur eitthvað fara í taugarnar á sér. Auðvitað er landið þjóðarinnar. Bændurnir eru vinnumenn í þeirri auðlind og þarf ekki að gera lítið úr bændunum eða skapa tortryggni í svona umræðu (MÞH: Ég var ekki að því.) með útúrsnúningi, hæstv. forseti.

Margt hefur gerst, hv. þingmenn, á þeirri tíð sem ég hef verið landbrh. þannig að engum þarf að koma á óvart þó að hesturinn gangi greitt. Miklar breytingar hafa átt sér stað og mörg ný verkefni litið dagsins ljós, ekki síst á þeim sviðum sem hér eru til umræðu, bæði í skógræktarmálum og ýmsum nýjum verkefnum í náttúru þessa lands, sveitunum. Ég tel mig framsýnan að því leyti og vil sjá þar nýjar sólir rísa og nýja tíma renna í garð til að gera stofnanir okkar sterkari til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem hv. þingmenn hafa farið yfir í þessari umræðu með jákvæðum hætti, allir fyrir utan einn hv. þm.

Ég þakka þessa umræðu. Ég stend í stórræðum á morgun. Mun flytja ný breytingamál fyrir löggjafarþingið. Ég mun halda því áfram og tel að endurskoðunar sé þörf á mörgum sviðum til að efla landbúnaðinn og atvinnuna á landsbyggðinni. Mörg glæsileg tækifæri eru til staðar sem ég mun vinna að og ég þakka þessa ágætu umræðu í dag af hálfu vinstri hliðarinnar í þingsalnum.