Vatnasvæði Ölfusár og Hvítár

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:52:40 (6352)

2004-04-14 19:52:40# 130. lþ. 96.21 fundur 901. mál: #A vatnasvæði Ölfusár og Hvítár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi MÞH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:52]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson):

Hæstv. forseti. Í febrúar kom út vönduð skýrsla á vegum Veiðimálastofnunar sem ber titilinn Fiskstofnar vatnasvæðis Ölfusár-Hvítár, seiðabúskapur, veiði, veiðinýting og fiskræktarmöguleikar. Höfundar eru fiskifræðingarnir Magnús Jóhannsson og Sigurður Guðjónsson.

Vatnasvæði Ölfusár-Hvítár er eitt hið stærsta og fjölbreyttasta á landinu. Segja má með fullgildum rökum að þetta sé ein helsta perla Íslands þegar talað er um vistkerfi, bæði fallvatna og stöðuvatna. Í hinum fjölmörgu ám og vötnum á þessu svæði er að finna allar tegundir fiska sem finnast í ferskvatni hér á landi. Skýrsla Veiðimálastofnunar gefur til kynna að laxveiði á þessu mikla vatnasvæði hafi minnkað mjög mikið mörg undanfarin ár, þ.e. úr rúmum 14 þús. löxum þegar hæst bar fyrir rúmum 30 árum í 3--5 þús. laxa mörg undanfarin ár.

Skýringarnar eru sjálfsagt margar, óhagstæð umhverfisskilyrði einhver ár og minnkun á netaveiði á laxi á svæðinu eru atriði sem talin eru til. Fram kemur að netaveiði hafi dregist nokkuð saman enda hefur verð á laxi lækkað samfara auknu laxeldi. Jörðum sem stunda netaveiðar hefur einnig fækkað um 10 á síðasta áratug eða svo. Þær eru nú 20 talsins. Í skýrslu Veiðimálastofnunar reyna höfundar að taka á þeirri spurningu hvort það mundi skila meiri arði til veiðiréttareigenda ef netaveiðum á vatnasvæðinu yrði hætt en eingöngu seld veiðileyfi til stangveiða í staðinn.

Niðurstaðan er sú að ef netaveiðum yrði hætt mundi það gefa svo miklar viðbótartekjur að netajörðum yrði bættur skaðinn og gott betur. Leiddar eru líkur að því að það mundi jafnvel hlífa laxastofnum í þessu mikla vatnakerfi ef netaveiðum í gruggugum ám á borð við Hvítá og Ölfusá yrði hætt. Það er nánast ómögulegt að stunda stangveiðar í gruggugu vatni þótt þar megi stunda netaveiðar.

Hugsanlega veiddust aðeins um 700 laxar af þeim 3.000 löxum sem nú veiðast árlega í net á stangir við þessa breytingu. En þrátt fyrir það yrði ávinningurinn umtalsverður því að talið er að þessir 700 laxar mundu skila á bilinu 14--21 millj. kr. í tekjur.

Mig langar í ljósi þessa til að leggja spurningar fyrir hæstv. landbrh. sem er jú yfirmaður veiðimála í ferskvatni hér á landi, m.a. með tilvísun í lög nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, þar sem ,,veiðimálastjóra er rétt að friða heilt vatn gegn allri veiði eða einstökum veiðiaðferðum`` telji menn fiskstofna í hættu eða að þá þurfi að vernda með einhverjum hætti. Spurningar mínar eru svohljóðandi:

Hyggst ráðherra á einhvern hátt beita sér fyrir því að netaveiðum á laxi á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár verði hætt?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum fjárveitingum til fiskrannsókna á þessu merka vatnasvæði? Það er mjög fjölbreytilegt að allri náttúru eins og ég taldi upp áðan.

Er ráðherra kunnugt um rannsóknir á hugsanlegri mengun í vatnakerfi Ölfusár og Hvítár? Ef svo er, hvaða niðurstöður hafa slíkar rannsóknir leitt í ljós?