Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 10:49:10 (6367)

2004-04-15 10:49:10# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 1336, 878. máli, frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum. Jafnframt mæli ég fyrir frv. á þskj. 1337, 879. máli, sem er frv. til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum. Frumvörpin eru lögð fram samhliða.

Meginmarkmið frumvarpanna er að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með því að endurskoða stofnanaskipan landbúnaðarins. Aðalatriði frumvarpanna er það að ríkisstofnanirnar Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri verði lagðar niður í núverandi mynd. Gert er ráð fyrir að ný stofnun verði mynduð á grunni hinna tveggja undir einni yfirstjórn og til verði Landbúnaðarháskóli Íslands, öflugur rannsóknaháskóli sem taki við öllum verkefnum, eignum og skuldbindingum eldri stofnananna tveggja.

Forsaga þessa máls er sú að þann 13. janúar 2004 var á vegum landbrn. skipuð sérstök verkefnisstjórn sem hafði það hlutverk að gera tillögur að sameiningu starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í eina sameiginlega stofnun. Verkefnisstjórnin var skipuð hv. þm. Magnúsi Stefánssyni sem var jafnframt formaður, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, formanni landbn., Eysteini Jónssyni, aðstoðarmanni landbrh., Jóni Magnússyni, viðskiptafræðingi í fjmrn., og Sigurgeiri Þorgeirssyni, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands.

Verkefnisstjórnin vann hratt og skipulega og skilaði niðurstöðum sínum til ráðuneytisins þann 29. mars sl. Áliti nefndarinnar fylgdu drög að lagafrumvörpum sem síðar voru unnin áfram af starfsmönnum ráðuneytisins og var endanleg niðurstaða þau frumvörp sem ég mæli fyrir.

Ég vil nota tækifærið til að þakka verkefnisstjórninni fyrir vel unnin störf og vandaðan undirbúning. Verkefnisstjórnin hafði samráð við og leitaði álits hjá fjölda aðila sem tengjast landbúnaði beint og óbeint. Einnig hafði verkefnisstjórnin gott samráð við forstöðumenn Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Þá lét verkefnisstjórnin gera ítarlega skoðanakönnun meðal allra starfsmanna landbúnaðarháskólans og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Nefndin hélt fund með starfsmönnum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og í kjölfar þess fundar var haldinn fundur með starfsmönnum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Starfsmenn beggja stofnana fjölmenntu á báða þessa fundi og tóku virkan þátt í umræðunni. Þeir komu með margar góðar ábendingar til verkefnisstjórnarinnar sem skiluðu sér margar hverjar inn í lagafrumvörpin. Einnig kallaði verkefnisstjórnin á sinn fund forvígismenn fjölmargra háskóla og háskólastofnananna og leitaði álits hjá þeim. Þrátt fyrir stuttan undirbúningstíma hafa frumvörp þessi verið vel undirbúin af hálfu landbrh. Helstu efnisákvæði frumvarpanna eru þessi:

Breytingar eru gerðar á lögum um búnaðarfræðslu. Lagðar eru til breytingar þannig að ekki er lengur gert ráð fyrir að staðsetning skólastofnana landbrn. komi sérstaklega fram í lögum. Ástæður þessa eru tvíþættar. Í fyrsta lagi eru stofnanirnar með starfsemi á mörgum stöðum á landinu. Landbúnaðarháskóli Íslands kemur til með að hafa starfsstöðvar á Hvanneyri, í Reykjavík, á Möðruvöllum og víðar. Þá er Hólaskóli með starfsemi á Sauðárkróki auk þess að vera á Hólum í Hjaltadal.

Auk þessa má nefna að tækni nútímans takmarkar starfsemi skóla ekki lengur við húsnæði eða staðsetningu. Nú eru möguleikar í fjarnámi slíkir að nemendur skóla geta verið staðsettir hvar sem er á landinu og raunar erlendis líka. Staðsetning kennsluhúsnæðis vegur því minna en áður var. Fjarnám bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi hefur vaxið langt umfram hefðbundið nám á undanförnum árum og á sú þróun einnig við um landbúnaðarskólana.

Lagt er til að hin nýja sameinaða stofnun heiti Landbúnaðarháskóli Íslands. Gert er ráð fyrir því að fest verði í lög að við hinn nýja skóla verði starfrækt sérstök rannsóknarsvið er hafi aðskilinn fjárhag.

Gerðar eru breytingar á 22. gr. laga um búnaðarfræðslu er miði að því að skýra betur verkaskiptingu háskólaráðs og rektors frá því sem er í núverandi lögum. Háskólaráði er fyrst og fremst ætlað að móta stefnu skólans í kennslu og rannsóknum. Rektor ber hins vegar ábyrgð á allri stjórnsýslu skólans, starfsmannahaldi og rekstri stofnunarinnar. Rektor er jafnframt embættismaður í skilningi 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ber því ábyrgð á að útgjöld séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Í núverandi lögum er ekki um eins skýr skil milli rektors og háskólaráðs að ræða. Eftir breytinguna er því ágreiningslaust að rektor ber endanlega ábyrgð á rekstrarafkomu stofnunarinnar en háskólaráð og rektor bera í sameiningu ábyrgð á mótun kennslu og rannsóknarstefnu skólans.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á skipan háskólaráðs. Lagt er til að háskólaráð verði skipað sjö mönnum. Er það óbreytt skipan frá því sem nú er en tilnefningar breytast töluvert. Lagt er til að í háskólaráði eigi sæti: Í fyrsta lagi háskólarektor sem jafnframt er formaður ráðsins. Í öðru lagi einn fulltrúi skipaður af landbrh. Í þriðja lagi einn fulltrúi tilnefndur af menntmrh. Í fjórða lagi tveir fulltrúar tilnefndir af Bændasamtökum Íslands. Í fimmta lagi einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins og í sjötta lagi einn fulltrúi tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands. Alls eru þetta sjö einstaklingar.

Einn megintilgangur lagafrv. er að ná fram öflugri tengslum sameinaðrar stofnunar við atvinnulífið og landbúnaðinn og stuðla þannig að því að gera Landbúnaðarháskóla Íslands að atvinnutengdum háskóla í meiri mæli en hjá öðrum ríkisháskólum. Í stað fulltrúa kennara og nemenda kemur tilnefning frá Samtökum atvinnulífsins auk þess sem fulltrúum Bændasamtaka Íslands fjölgar úr einum í tvo. Í lögum um háskóla nr. 136/1997, ásamt síðari breytingum, er kveðið á um að í háskólaráði ríkisháskóla skuli sitja fulltrúar bæði nemenda og starfsmanna. Hér er því lögð til önnur skipan en kveðið er á um í rammalögum um háskóla í ljósi þeirrar auknu tengingar við atvinnulífið sem er eitt af höfuðmarkmiðum lagabreytinganna.

Lagt er til að landbrh. sé ekki bundinn af tilnefningu háskólaráðs þegar hann skipar rektor. Er það í samræmi við hefðbundin sjónarmið stjórnsýsluréttar að ráðherra beri einn ábyrgð á ráðningu forstöðumanna stofnana undir hans yfirstjórn. Einnig er lagt til að ekki þurfi að koma til samþykki háskólaráðs áður en ráðherra leysir rektor frá störfum. Telja verður óeðlilegt að starfsmenn rektors í háskólaráði eða varamenn þeirra fái ráðið því hvort ráðherra leysir rektor frá störfum eða ekki. Þar sem ráðherra skipar rektor þykir rétt að ráðherra beri einnig ábyrgð á brottvikningu hans samkvæmt ákvæðum laga.

Í lagafrv. er gert ráð fyrir því nýmæli að landbrh. geti sett reglugerð sérstaklega um rannsóknarsvið landbúnaðarháskólans. Með þessu ákvæði kemur fram ákveðin sérstaða rannsóknarsviðsins umfram svið sem ekki er sérstaklega getið um í lögunum, heldur eru háð því skipulagi sem rektor og háskólaráð móta hverju sinni. Ljóst er að það kallar á nokkra vinnu að undirbúa hina nýju stofnun undir gildistöku laganna og því er lagt til að rektor verði ráðinn til starfa 1. ágúst nk. til að sinna undirbúningi áður en eiginleg starfsemi hefst. Einnig er lagt til að skipan háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands verði einnig lokið fyrir 1. ágúst nk. Þetta er nauðsynlegt til að rektor og háskólaráð geti saman unnið að þeim verkefnum sem gildistaka laganna hefur í för með sér. Eðlilegt þykir að nemendur geti haldið áfram námi óháð sameiningu stofnananna og því er þeim gefinn kostur á að ljúka núverandi námi samkvæmt gildandi námskrá og er í frv. bráðabirgðaákvæði þess efnis, sambærilegt við ákvæði í lögum frá því að Bændaskólinn á Hvanneyri varð að háskóla árið 1999.

Breytingar eru gerðar á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Í V. kafla laganna um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er fjallað um landbúnaðarrannsóknir. Efnisbreytingar eru þær að ákvæði sem fjalla um skipan stjórnar og forstjóra falla niður. Í þess stað kemur skilgreining á landbúnaðarrannsóknum og eru þær felldar undir rannsóknarsvið hins nýja Landbúnaðarháskóla Íslands. Skilgreiningum á landbúnaðarrannsóknum og því hlutverki sem þær gegna er breytt verulega og þær settar í meira samhengi við hið fjölþætta hlutverk landbúnaðarins í nútímasamfélagi. Heimild til að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum að fengnu samþykki ráðherra verður óbreytt.

Á fskj. með frumvörpum þessum er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frumvörpin. Læt ég nægja að vísa til þeirra. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerða með frumvörpunum.

Hæstv. forseti. Með frumvörpum þessum eru lagðar til mikilvægar breytingar á menntamálum landbúnaðarins. Að mínu mati verður stigið mikið framfaraspor ef frumvörpin verða að lögum. Ljóst er að samvinna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri er mikil nú þegar. Lykilatriði framþróunar í landbúnaði er aukin þekking og menntun. Ég tel þessi frumvörp mikilvæg í að tryggja tilveru öflugs rannsóknaháskóla landbúnaðarins og einnig tryggja að þeim fjármunum sem varið er til rannsókna og mennta sé vel varið.

Síðast en ekki síst tel ég að frumvörpin leitist við að tryggja að sá mannauður og þekking sem orðið hefur til nýtist landbúnaði á Íslandi með sem bestu móti, landinu öllu til hagsældar.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og landbn.