Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:03:00 (6368)

2004-04-15 11:03:00# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, AKG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég verð að segja að enn og aftur lýsi ég furðu minni á þeim vinnubrögðum sem tíðkast undir stjórn hæstv. landbrh. Fyrir skömmu fengum við í hendurnar tvö stór lagafrv., þ.e. til jarðalaga og til ábúðarlaga. Bæði þau frv. komu fyrir Alþingi í fyrravor, fyrir ári síðan, og þá kom fram í umræðum ánægja þeirra sem til máls tóku með að nægur tími gæfist á komandi haustþingi til að taka þau til ítarlegrar efnislegrar umræðu eins og vissulega er tilefni til með þau frv. bæði. Þau birtust síðan fyrst, eins og ég sagði áðan, fyrir um 10 dögum síðan.

Sömu sögu er að segja um lögin um lax- og silungsveiðar sem við fengum til umfjöllunar, nýkjörin landbn., í sumar vegna þess að þá reyndist nauðsynlegt að setja bráðabirgðalög. Það frv. hafði velkst á Alþingi í heilan vetur án þess að fá viðunandi umfjöllun og endaði svo í dæmalausu klúðri eins og landsmönnum er í fersku minni, geri ég ráð fyrir.

Hér er svo komið á síðustu dögum þingsins frv. sem jafnframt þarf mikla umfjöllun og er að mínu mati ákaflega illa undirbúið því það snertir ekki einungis þær stofnanir sem hér er mest talað um, þ.e. Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, heldur er þar jafnframt um að ræða tvær aðrar menntastofnanir sem heyra undir landbrn., þ.e. Hólaskóla, Háskólann á Hólum, eins og hann heitir, og Garðyrkjuskóla ríkisins í Ölfusi. En tækifærið er ekki nýtt til að gera þær breytingar sem þörf er á fyrir þær tvær stofnanir heldur er þeim í raun og veru sýnd ærin óvirðing í frv. Ég er hissa ef forsvarsmenn þeirra stofnana og starfsmenn allir hafa ekki orðið fyrir vonbrigðum og orðið sárir við að sjá hvernig meðferð er á þeim stofnunum í því frv. sem hér liggur fyrir.

Ef ég vík svo að efni frv. að öðru leyti er í 1. gr. talað um nafnbreytingu á Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og lagt til að hann heiti Landbúnaðarháskóli Íslands, eins og hæstv. ráðherra komst að orði áðan, í krafti þess að skólinn starfi á ýmsum stöðum á landinu og rakti hann nokkra af þeim stöðum. Ég ætla að fræða hæstv. ráðherra um það að Verkmenntaskólinn á Akureyri átti nemendur í öllum heimsálfum fyrir nokkrum árum og ég veit ekki til að þörf hafi þótt á því að kalla hann verkmenntaskóla alheimsins eða eitthvað í þá veruna þrátt fyrir það. Það er eðlilegt að skólar hafi nemendur víða um land og jafnvel víða um heim í krafti fjarnáms og ekki sérstök ástæða til að vera með hálfgerðan hroka í nafngiftum eins og mér finnst koma fram í nafngiftinni Landbúnaðarháskóli Íslands og mér finnst það satt að segja tiltekin skilaboð til hinna háskólanna tveggja, Háskólans á Hólum og Garðyrkjuskóla ríkisins. Þeir eru alveg tvímælalaust settir skör lægra í frv. en Landbúnaðarháskóli Íslands og það eru skilaboð sem talsmenn þeirra skóla hljóta að taka mjög alvarlega frá hæstv. ráðherra.

Í 4. gr. lagafrv. er talað um að við Landbúnaðarháskóla Íslands skuli starfrækt sérstakt rannsóknasvið, sbr. V. kafla laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, með síðari breytingum. Þá hlýtur maður líka að spyrja sig: Hvað með aðra háskóla sem heyra undir landbrn.? Hvernig hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að styrkja rannsóknasvið þeirra háskóla?

Í 4. gr. núverandi laga um búnaðarfræðslu, sem þetta frv. er brtt. við, kemur fram að landbrh. skipi búfræðsluráð til fjögurra ára í senn. Þar er talað um rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri en síðan er þar talað um skólameistara Búnaðarskólans á Hólum í Hjaltadal og á Reykjum í Ölfusi. Nú er það svo að þar sem um er að ræða háskóla er yfirmaður kallaður rektor en ekki skólameistari og þar er líka um að ræða háskólaráð en ekki skólanefnd. Þarna er enn dæmi um hvernig gera hefði átt frv. víðtækara og taka alla skólana þrjá inn og gera þær breytingar sem viðeigandi eru miðað við breytt fyrirkomulag á málum í dag.

Í 6. gr. frv. til laga um breytingu á lögunum um búnaðarfræðslu segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

,,Stjórn Landbúnaðarháskóla Íslands er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar stefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag skólans.``

Í athugasemdum við þessa grein frv. segir, með leyfi forseta:

,,Breytingar á 22. gr. laganna miða að því að skýra betur verkaskiptingu háskólaráðs og rektors frá því sem er í gildandi lögum. Háskólaráði er fyrst og fremst ætlað að móta stefnu skólans í kennslu og rannsóknum. Rektor ber hins vegar ábyrgð á allri stjórnsýslu skólans, starfsmannahaldi og rekstri stofnunarinnar.``

Síðar í sömu skýringu kemur hins vegar fram misræmi, bæði í rauninni innan skýringargreinarinnar og jafnframt við lagagreinina en þar segir í síðustu setningunni, með leyfi forseta:

,,... en háskólaráð og rektor bera í sameiningu ábyrgð á mótun kennslu- og rannsóknastefnu skólans.``

Þarna segir eitt í 1. mgr. skýringartextans, annað í lagagreininni sjálfri og enn annað í síðustu setningu viðkomandi greinar. Ég tel þetta ekki vera vitnisburð um góð vinnubrögð, herra forseti.

Í 7. gr. frv. er fjallað um skipun háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar vekur furðu hvernig samsetning og skipan ráðsins á að vera. Þar er einn fulltrúi skipaður af landbrh., einn fulltrúi tilnefndur af menntmrh. en þar er enginn tilnefndur af umhvrh. en eru þó umhverfismál, skipulag og landnotkun, einn af sterkum þáttum í starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, verðandi Landbúnaðarháskóla Íslands, og fyrst á annað borð verið er að kalla til fulltrúa ráðuneyta sem við koma rekstri þessara skóla hefði ekki verið að ófyrirsynju að kalla til fulltrúa umhvrn. jafnframt. En þarna eru þess í stað tilnefndir tveir fulltrúar af Bændasamtökum Íslands og satt að segja finnst mér að annar þeirra hefði alveg mátt missa sig fyrir fulltrúa frá umhvrn. og styrkja þar með þessa nýju grein í starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands.

Það sem vekur þó mesta furðu er að í ráðinu á að sitja fulltrúi frá háskólaráði annars háskóla, þ.e. Háskóla Íslands. Ég hygg að það hljóti eiginlega að vera einsdæmi að sjálfstæður háskóli eigi að eiga fulltrúa í háskólaráði annars sjálfstæðs háskóla.

Það þriðja sem er skrýtið og ég vil mótmæla er að nemendur og kennarar eigi ekki að eiga fulltrúa í háskólaráði eins og ber að gera samkvæmt rammalögum um háskóla.

Í 29. gr. núverandi búnaðarlaga er talað um Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal sem nú heitir Hólaskóli, Háskólinn á Hólum, og þar er líka talað um Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. Eins og ég sagði áðan er undarlegt að tækifærið skuli ekki hafa verið notað til að fara almennilega í gegnum þennan lagabálk allan og gera þær breytingar sem nauðsyn er á til að koma til móts við aðstæður dagsins í dag.

Ég minntist líka fyrr í ræðu minni á háskólaráð annars vegar og skólanefndir hins vegar. 31. gr. er líka grein sem breyta þarf til samræmis við raunveruleikann. Ég hélt að hæstv. landbrh. ætti nú að vera þetta kunnugt því að það var jú hann sem stóð að því, og þökk sé honum fyrir það, að færa Hólaskóla upp á háskólastig og jafnframt Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum. En það er undarlegt að þurfa að vera með slík handarbakavinnubrögð aftur og aftur að lögin skuli koma fram hálfköruð og meingölluð.

Ég legg til að frv. verði vísað til menntmn. til umsagnar og jafnframt til umhvn., því eins og ég sagði áðan í ræðu minni kemur starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri báðum þessum stofnunum við og ég tel að menntmn. eigi að hafa um það að segja líka. Ég tel að það hljóti að verða framtíðin að allir þessir háskólar færist undir menntmrn. hvenær sem það verður. Vonandi getum við öll treyst því að einhvern tímann verði þeim sinnt almennilega í menntmrn. ekki síður en þeim hefur verið sinnt í landbrn. í dag. Ég er viss um að það verður framtíðin að þangað muni þeir fara eins og aðrar menntastofnanir í landinu því það er ekki eðlilegt að setja stofnanir á hin og þessi ráðuneyti eftir tegund þeirrar fræðslu sem þar fer fram því þá ættum við að hafa t.d. Viðskiptaháskólann á Bifröst undir viðskrn. o.s.frv. Og hluta Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík kannski undir dómsmrn.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta að sinni. Ég vonast til að málið fái ítarlega og góða umfjöllun í öllum nefndunum, menntmn., landbn. og umhvn., og síðan fari það auðvitað út til umsagnar, ég er viss um að það koma fjölmargar athugasemdir við frv. Ég vil þó enda ræðu mína núna á því að segja að það hryggir mig að ráðherra skuli sýna Hólaskóla, Háskólanum á Hólum, og Garðyrkjuskóla ríkisins í Ölfusi þá óvirðingu sem gert er í frv.