Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:16:55 (6369)

2004-04-15 11:16:55# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:16]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir frv. til breytinga á lögum um búnaðarfræðslu og einnig fyrir frv. til breytinga á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Meginmarkmið þessara lagabreytinga er að færa saman rannsóknir, kennslu og fræðslu í landbúnaði, þ.e. þeim greinum sem snúa að fjölþættri landnotkun, landnýtingu og verndun landgæða sem hafa verið á verksviði þessara stofnana, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og einnig Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum. Þessar stofnanir hafa allar haft það hlutverk, rannsóknir, fræðslu og kennslu í landbúnaði.

Styrkur þessara stofnana hefur verið sá að þær hafa allar verið í afar nánum tengslum við atvinnulífið, við samfélagið. Þær hafa verið stór þátttakandi í öllu samstarfi þess fólks sem í þessum greinum starfar og einnig í uppbyggingu og þróun verkefna á vettvangi. Það hefur verið náið samstarf á milli þessara stofnana, milli einstakra starfsmanna, stofnananna í heild og atvinnulífsins og fólksins sem starfar í landbúnaði og tengdum greinum. Þetta hefur verið styrkur þessara stofnana og hefur gefið þeim möguleika á þeirri gríðarlega sterku stöðu sem þær hafa í dag. Starfsemi þeirra hefur jafnframt verið staðsett víða um land. Hún fer ekki fram á einum stað heldur víða um land, þ.e. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Hólaskóli og Garðyrkjuskólinn á Reykjum. Allar þessar stofnanir gegna gríðarlegu félagslegu, samfélagslegu og menningarlegu hlutverki í nærumhverfi sínu sem speglast reyndar í og hefur áhrif á allt samfélagið á Íslandi, sérstaklega dreifbýlissamfélagið.

Ég tel mikilvægt að þessi atriði séu dregin afar sterkt fram, ég tala ekki um í þeirri umræðu og þróun sem við höfum staðið frammi fyrir, óheillaþróun í atvinnulífi og búsetuskilyrðum í dreifbýli. Þessar stofnanir hafa ekki bara megnað að standa af sér þá þróun heldur náð að byggjast upp og styrkjast. Þessar landbúnaðarstofnanir, sérstaklega skólarnir, eru einna öflugustu mennta- og rannsóknastofnanirnar utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar. Hlutverk þeirra getur ekki annað en vaxið ef rétt er haldið á málum. Ég held að fæstir geri sér grein fyrir hve gríðarmiklu hlutverki þær gegna. Þess vegna ber líka að koma að breytingum á umgjörð þeirra, bæði starfs- og lagaumgjörð, af varúð. Ganga verður út frá því markmiði að því hlutverki og stöðu þeirra verði ekki raskað heldur verði það frekar styrkt.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að þessar stofnanir hafa heyrt undir landbrn. frá því að það var stofnað. Það virðist ekki hafa orðið þeim til trafala, síður en svo. Auðvitað vildum við að styrkur þeirra væri meiri og landbrn., sem ábyrgðaraðili þeirra hjá ríkisvaldinu, gæfi þeim meira og aukið svigrúm og efldi þær enn meir. Ég held að það sé hin eilífa krafa. En samanborið við aðrar stofnanir á landsbyggðinni, mennta- og rannsóknastofnanir og reyndar líka stofnanir í þéttbýli, hafa þær stofnanir, þrátt fyrir að mönnum sé tíðrætt um smæð þeirra, sýnt gríðarlegan styrk enda er styrkur og afköst ekki alltaf fólgin í stærð. Krafturinn er fremur fólginn í þeim mannauð sem þar er á hverjum tíma og möguleikum þessara stofnana til að bregðast við og sækja fram í heimi örra breytinga. Þar hefur styrkur þessara litlu stofnana kannski legið, í öflugu baklandi og því að vera nátengdar grasrótinni sem þær hafa starfa með og í því að hafa yfir að ráða starfsfólki sem hefur getað brugðist við, tekist á við nýja möguleika og nýjar kröfur.

Við eigum að vera stolt af því að eiga stofnanir sem hafa sýnt slíkan dug og eigum því að umgangast það með mikilli varúð að breyta laga- eða starfsumgjörð þeirra. Þetta vil ég taka fram í upphafi og bið hv. þingmenn að hafa það í huga þegar fjallað er um starfsumhverfi og stöðu stofnana landbúnaðarins. Ég held því ekki fram að hagur þeirra væri verr kominn undir menntmrn. en á það hefur ekki reynt. Hag þeirra hefur að mörgu leyti verið vel borgið undir landbrn. Ráðuneytið hefur reynst þeim vel og það eru engin rök fyrir því að breyta frá því sem vel hefur gengið nema óyggjandi sé að það verði til batnaðar.

Varðandi þær breytingar sem gera á samkvæmt frumvörpum hæstv. ráðherra, frv. til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu og lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, er að mínu viti meginmarkmið þeirra að færa saman verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins til menntastofnana. Í þessu tilfelli er fjallað um Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Þetta hefur lengi verið á döfinni og lengi verið í umræðu. Á undanförnum árum hefur markvisst samstarf þessara stofnana verið að þróast. Það hefur orðið til góðs og styrkt stöðu þeirra beggja. Með þessum frumvörpum er lagt til að stigin verði til fulls skref í sameiningu þessara stofnana.

Ég tel markmið frumvarpanna mjög gott og styð það. Ég vonast til að meginmarkmiðið sem að er stefnt með sameiningu umræddra stofnana og verkefna þeirra nái fram að ganga á þessu þingi. Það má að sjálfsögðu gagnrýna hve seint málin eru fram komin. Ég tel að það sé eðlileg gagnrýni. Þetta hefur verið það lengi á döfinni og hæstv. ráðherra getur í sjálfu sér ekki afsakað hve seint málin eru fram komin. Þessi frumvörp eru þó komin fram.

Að sjálfsögðu eru á frumvörpunum allnokkrir hnökrar að mínu viti. Ég hefði talið réttast við þessar aðstæður að frumvörpin yrðu einungis sniðin að því sem ætlað er að ná fram með þeim, þ.e. að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins renni saman sem stjórnsýslueining. Aðra þætti sem ekki snerta beint þá ætlan hefði átt að halda utan við frumvörpin. Með því að opna á fleiri atriði í frumvörpunum er boðið heim umræðu um atriði í lagabálkum þessara stofnana og rannsókna í þágu atvinnuveganna í stærra samhengi. Þar er lengi hægt að tína til eitt og annað.

Ég legg því til að þegar þetta mál fer til landbn., sem ég vænti að frv. fari til, verði meginmarkmiðið í vinnu nefndarinnar varðandi þessi frumvörp að skoða þær breytingar sem hér er tekist á við, breytingu á lögum um búnaðarfræðslu og breytingar á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem snúa afmarkað að þessum þætti. Aðrir þættir yrðu látnir bíða.

Varðandi einstök atriði sem hér er fjallað um tek ég undir það sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir nefndi, um nafngiftirnar. Ég tel mikið umhugsunaratriði hvort ganga eigi fram með þeim hætti að kalla stofnunina Landbúnaðarháskóla Íslands. Við erum með fleiri menntastofnanir landbúnaðarins sem starfa einnig á háskólastigi. Þess vegna getur þessi nafngift verið villandi.

Ég tel líka að skoða eigi vandlega hvort menntastofnanir þessar fái ekki að vera kenndar við staði sína. Þær hafa þar heimili, varnarþing og setu þó að starfsemi þeirra fari fram víðar. Ég tel það óþarfa viðkvæmni og ástæðulausa og málefninu ekki til framdráttar að fella burt heimili þessara stofnana. Landbúnaðarháskólanum er ætlað að vera á Hvanneyri áfram þótt starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem nú er flytjist þangað í áföngum, verði undir þeim hatti. Það er ekkert feimnismál.

Hólaskóli verður áfram á Hólum í Hjaltadal þótt hann verði með starfsemi víðar og það verður ekkert feimnismál. Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi verður ekkert feimnismál að vera á Reykjum. Ég tel að menn eigi að forðast það í svona lagasetningu að búa til falska eða ímyndaða umgerð. (Gripið fram í: Engan feluleik.) Nei, engan feluleik. Menn ættu bara að halda sér við efnið enda er málstaðurinn góður. Þetta tel ég varðandi þessa þætti. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur sína staðsetningu og þar hefur starfsemi hans sitt heimili. Þetta vildi ég taka fram.

[11:30]

Einnig vil ég nefna stjórn landbúnaðarháskólans sem þarna er kallaður Landbúnaðarháskóli Íslands eða hinnar nýju stofnunar sem á að mynda við sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Tillagan um stjórn þessarar nýju stofnunar finnst mér ekki vera góð. Hún er beinlínis röng. Það er t.d. fráleitt að fella burt þátttöku eða hlutdeild nemenda og starfsmanna í stjórn slíkrar stofnunar. Það er bara alveg fráleitt. Þetta er fyrst og fremst stofnun nemenda og starfsmanna. Án virkrar og beinnar þátttöku þessara aðila í starfsemi stofnunarinnar verður hún hvorki fugl né fiskur, alveg sama hver ráðherrann er. Mér finnst skorta inntak, innsýn í það hvers konar stofnun eigi að byggja upp í þessari nálgun á breytingu. Ég ætla ekki að væna þá sem unnu frv. um að þeir hafi verið að gera þetta af ráðnum hug en mér sem skólamanni finnst að inntak vanti í þessar breytingar og að þær séu meira svona mekanískar. Ég tel að það sé ekki til bóta því ég ítreka það að styrkur þessarar stofnunar felst ávallt í nemendum og starfsliði þar á hverjum tíma ásamt góðri umgjörð sem byggist líka á þeim samskiptum sem það starfsfólk byggir upp.

Þetta eru meginatriðin í frv. um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu sem ég vil gera að umtalsefni og tel að eigi að standa öðruvísi að. Varðandi frv. um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er það alveg hliðstætt. Ég ítreka að þó Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafi verið staðsett í Reykjavík hefur hún haft afl og dug til mjög náins samstarfs við bændur um allt land og mjög mikilvægt er að þau tengsl og sú vísindalega þekking og atgervi sem sú stofnun hefur byggt upp séu varðveitt og haldi sér enda sé ég ekki neitt í þessum lögum sem bendir til annars. Þó er afar mikilvægt að allar breytingar verði unnar í nánu samstarfi við starfsfólk þessara stofnana. Samkvæmt tillögunni á nú að leggja þær báðar niður þannig að væntanlega fá starfsmennirnir rétt til að taka ákvörðun um það hvort þeir vinna hjá hinni nýju stofnun eða ekki, eða taka biðlaunarétt. Það er mjög mikilvægt þegar við erum að vinna svona breytingar að það sé gert í mjög góðu samstarfi við allt starfslið umræddra stofnana.

Ég vil líka vekja athygli á öðru því mér finnst það aðeins skína í gegn í frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna sem hæstv. ráðherra mælti hér fyrir. Það er að það eigi að gera því skóna að hér sé bara einn landbúnaðarháskóli eða að eftir þessa sameiningu verði ein aðalstofnun í menntun og rannsóknum í landbúnaði. Til þess bendir orðalag um hlutverk rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands sem kveðið er á um í frv. Það vísar til þess að hugmyndin sé sú að það verði bara ein aðalstofnun. Ég á ekki von á að það sé ætlun flutningsmanna. En það kemur þannig út. Ég hefði talið eðlilegra að horft yrði til þess þegar þessi mál þróast áfram hvaða verkefni sé eðlilegast að vistist á Hvanneyri, á Hólum eða á Reykjum í Ölfusi af þeim rannsóknaverkefnum sem hér um ræðir eins og verið hefur á undanförnum árum. Í gildi hefur verið verkaskipting á milli þessara stofnana sem hefur náð til kennslu og rannsókna, alveg frá því að vera grunnnám, fagnám, háskólanám og líka í rannsóknum þannig að styrkur hverrar stofnunar hefur getað byggst upp með samræmdum hætti. Ég tel mjög mikilvægt að þetta frv. sé ekki að grípa á neinn hátt inn í eða gefa vísbendingu um inngrip í þá verkaskiptingu og möguleika sem hinar stofnanirnar eða þær allar hafa haft sín í milli.

Herra forseti. Ég ítreka að ég legg áherslu á að þessi frv. um þann megintilgang að ná fram sameiningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og landbúnaðarháskólans nái fram að ganga og að í landbn. eða þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar gefist tækifæri til að sníða af frv. þá augljósu hnökra sem á þeim eru og beina þeim í þann farveg að lagabreytingin ein og sér taki fyrst og fremst og afmarkað á sameiningunni en opni ekki umræðu um fleiri þætti í rannsóknum og kennslu í landbúnaði. Þá erum við að færast of mikið í fang.