Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:37:10 (6370)

2004-04-15 11:37:10# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir mjög málefnalega ræðu. Ég efast reyndar ekki um hans miklu þekkingu á þessum málaflokki. Ég sjálfur þekki starf hans við Hóla og Hólaskóli dafnaði vel í hans skólastjóratíð og festi hann í sessi sem mjög framsækinn skóla þannig að ég þakka þessa ræðu sem var alla vega svona fyrri hálfleikinn mjög jákvæð og reyndar á margan hátt ræðan öll.

Ég tek undir það með hv. þm. að mjög mikilvægt er að það góða samstarf sem verið hefur á milli þessara skóla, Hvanneyrar, Hóla og Reykja haldi áfram með sama hætti og efast ég ekki um það. Rannsóknir hafa í gegnum tíðina, eins og hv. þm. þekkir, verið miklar á Hólum, bæði í kringum fiskeldið og íslenska hestinn. Þar hefur farið fram mikið rannsóknastarf og Hólar eru dæmi um mjög öflugan skóla sem hefur vakið athygli. Sama má segja um Reyki í Ölfusi á sínu sviði.

Munurinn á þessum skólum er auðvitað sá að Hólar og Reykir eru háskólastofnanir eins og sett voru lög um í þinginu. Það er því engin lítillækkun fyrir þá þó að Landbúnaðarháskóli Íslands sé á Hvanneyri. Það verður kannski til að styrkja hann í sessi, t.d. í samstarfi sem hann á við önnur lönd, að hann er hinn raunverulegi Landbúnaðarháskóli Íslands með þann status. Það er verið að festa það í sessi þannig að ég vona að menn átti sig á þeirri skilgreiningu. Háskóli Íslands er Háskóli Íslands og ég er þeirrar skoðunar að það sé gott að þráður sé á milli þessara háskóla. En ég þakka hv. þm. málefnalega ræðu. Hún var sannarlega skagfirsk að hluta.