Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:48:48 (6373)

2004-04-15 11:48:48# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var góð og merkileg ræða. Sérstaklega fannst mér umhugsunarvert það sem hv. þm. sagði um jurtakynbætur. Ég er fullviss um að ein besta tenging landbúnaðar á Íslandi við framtíðina er í gegnum jurtakynbætur og hátæknivædda lyfjaframleiðslu. Ég held að það sé hið stóra stökk sem íslenskur landbúnaður á eftir að taka og á eftir að gjörbreyta honum á næstu áratugum.

Það var þó ekki tilefnið sem varð til þess að ég kom hingað heldur fannst mér merkilegt að heyra hv. þm. tala um hvernig þróunin hefði verið varðandi menntastofnanir sem tengdust atvinnuvegum á síðustu áratugum. Hv. þm. sagði að áður fyrr hefðu verið margar stofnanir undir fagráðuneytum. Þær hefðu verið fluttar undir menntmrn. og hv. þm. lýsti því hversu vel þeim hefði farnast þar. Ég held að hérna séum við í grundvallarumræðu um þróun menntamála á Íslandi.

Mér fannst hv. þm. ekki vera nægilega djarfur þegar hann var búinn að lýsa umhverfinu og sagði síðan: Þetta þarf að skoða. Hv. þm. er einn af talsmönnum stjórnarinnar í menntamálum og hefur tekið þátt í umræðu af þessu tagi á búnaðarþingi og mig langar, herra forseti, að spyrja hv. þm.: Er hann ekki sammála mér um að það sem væri farsælast fyrir þessar stofnanir og sennilega landbúnaðinn í landinu að stofnanirnar yrðu beinlínis fluttar undir menntmrn.? Mér fannst hv. þm. vera að tala með þeim hætti að skoðanir hans og mínar færu saman á þessu sviði. Er hann sammála mér um það?