Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:53:18 (6376)

2004-04-15 11:53:18# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:53]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Það er af og frá að hæstv. landbrh., þó mikill hestaunnandi sé, hafi eitthvert taumhald á okkur Sunnlendingum. Ég hugsa að ég sé það slyngur hestamaður að ég kunni þá krók á móti bragði hvað það varðar.

Það sem skiptir höfuðmáli er að atvinnulífið, þ.e. hinn íslenski landbúnaður, sætti sig við þær aðstæður sem menntun og rannsóknum á þessu sviði eru sköpuð. Það skiptir líka verulega miklu máli hvaða fjármagn stofnanirnar fá. (ÖS: Hann á ekki að sætta sig við það.) Mér finnst að stofnanirnar hefðu þurft að fá meira fjármagn til að geta staðið sig í stykkinu, bæði hvað varðar menntunina og rannsóknirnar. Ég vil að stofnununum verði búin betri aðstaða með auknu fjármagni, hvort sem þær verða undir menntmrn. eða landbrn.

Ég hef bent á marga góða þætti í samantektinni sem þessar þrjár nefndir unnu fyrir hæstv. landbrh. og ég vil að hún verði tekin inn í umræðuna.