Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 12:13:05 (6380)

2004-04-15 12:13:05# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[12:13]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja það úr þessum stóli að mér finnst eðlilegt að landbrh. hafi það vald. Hann ber sem fulltrúi ríkisvaldsins ábyrgð á þessum stofnunum. Það gæti vel verið að háskólaráðið væri að fara út í stórkostlegar fjárskuldbindingar þannig að mér finnst eðlilegt að ráðherra sé alltaf með í þeim málum og upplýstur og þurfi að taka afstöðu til þeirra á hverjum tíma. Allt annað væri óeðlilegt að mínu mati. Ég held því að það eigi ekki að há landbúnaðarháskólanum heldur styrkja hann og styrkja það samstarf sem hann þarf auðvitað að hafa við landbrn., ríkisstjórnina og löggjafarvaldið. Þannig að ég styð þetta ákvæði og tel það reyndar bara mikilvægt.

Ég vona sannarlega að það sé ekki svo að skólarnir líði fyrir það að vera atvinnuvegaskólar hvað fjármagn varðar eins og kannski var ýjað að í umræðunni. Alþingi setur fjárlögin og þarf auðvitað að fara yfir málefni skólanna --- það kom fram í einhverri ræðunni að meira fjármagn vantaði --- þingið fer yfir fjárlögin og þarf að meta verkefni skólanna út frá því. Ég trúi því að það sé jafnræði á milli þeirra hvort sem þeir heyra undir landbrn. eða menntmrn. hvað fjárlögin og fjárveitingarnar varðar.