Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 13:01:23 (6389)

2004-04-15 13:01:23# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[13:01]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Kjarni málsins er að auðvitað eiga tengsl á milli starfsmenntunar við atvinnulífið að vera öflug. Það er morgunljóst. Varnarræða hv. þm. Jóns Bjarnasonar fyrir hörmulega menntastefnu Sjálfstæðisflokksins síðasta áratuginn breytir engu þar um og er alveg dæmalaus. Það er spurning á hvaða vegferð hv. þm. er, svo dæmalaus var málflutningurinn.

Auðvitað er engin patentlausn að færa allar menntastofnanir undir eitt ráðuneyti. En ef menntmrn. stæði undir nafni mundi engum blandast hugur um að menntastofnunum, hvaða nöfnum sem þær nefnast, væri best fyrir komið þar. Kjarni málsins er að þvílík lausatök hafa verið á íslenskum menntamálum um langt skeið og metnaðarleysi Sjálfstfl. svo algjört í þeim málaflokki að menn eru farnir að horfa til þess að það hljóti að vera vegna ónógra tengsla við atvinnulífið o.s.frv. En þær varnir sem hv. þingmenn Vinstri grænna dikta upp fyrir metnaðarleysi Sjálfstfl. breyta þar engu um og er umhendis að heyra og bleik verulega brugðið.

Tengsl við ráðuneyti eru ekki ástæðan fyrir því að iðnmenntun hafi verið látin drabbast niður og að Sjómannaskólann hafi nánast rignt niður í orðsins fyllstu merkingu, enda hefur húsinu ekki einu sinni verið haldið í horfinu. Það kemur tengslum við ráðuneyti viðkomandi málaflokka alls ekkert við. Þar er einfaldlega um að kenna metnaðar- og viljaleysi. Við sem höfum verið að ræða þetta höfum fært það inn í umræðuna hvort eðlilegast væri til framtíðar að menntastofnanir heyrðu almennt undir eitt og sama ráðuneytið. Hér hefur enginn nefnt það nokkru sinni að um væri að ræða patentlausn, enda málum ágætlega fyrirkomið eins og er. Við erum að horfa til framtíðar í þessum málaflokki.