Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:27:14 (6400)

2004-04-15 14:27:14# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú má enginn túlka orð mín svo að ég vilji hallmæla Hólaskóla á nokkurn hátt, enda gamall Hólasveinn sjálfur. Ég get lýst því yfir að ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í því að það þarf að taka til í landbúnaðargeiranum og það þarf að sameina stofnanir landbúnaðarins og endurskoða þetta allt frá grunni. Ég sagði áðan í ræðu minni að það þyrfti að fara í þá vinnu og það er sú umræða sem við eigum að taka núna í tengslum við umræðuna um Landbúnaðarháskóla Íslands.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist áðan á að hann hefði slæma reynslu af því að flytja stofnanir út á land með miklu offorsi og gera of miklar breytingar í einu með miklu offorsi. Ég tel að það sé í sjálfu sér nógu stórt skref að gera þessa nauðsynlegu tiltekt, stofna landbúnaðarháskólann og taka frekar umræðuna seinna um það hvort hann eigi að heyra undir landbrn. eða menntmrn.