Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:30:28 (6402)

2004-04-15 14:30:28# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að gera hv. þm. upp þær skoðanir að taka ætti menntastofnanir landbúnaðarins og færa þær skilyrðislaust undir menntmrn. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að enginn í þessum umræðum hafi flutt eins góð rök fyrir því að flytja þær stofnanir undir menntmrn. og hv. þm. Kjartan Ólafsson. Hann sagði A-ið með hárri og snjallri röddu en lagði ekki í að segja B-ið. Hann er hræddur við hæstv. landbrh. og mér finnst að hv. þm. eigi ekki að kitla hæstv. ráðherra undir iljunum með því að færa öll rökin fyrir þeim flutningi en leggja síðan ekki í að segja það sem bersýnilega er skoðun hans sem er að þetta eigi að gera. Menn eiga að standa fyrir því sem þeim finnst. Hv. þm. hefur flutt þessi rök í nokkuð snjöllu máli en ég get svo sem vel skilið að hæstv. landbrh. hafi þessi tök á þingmönnum Sjálfstfl. Sem betur fer hefur hann ekki þau tök á þingmönnum Samf. í þessu máli. Við höfum alveg skýra og afdráttarlausa stefnu um það. Við teljum að sumt af því sem hæstv. ráðherra er að gera sé jákvætt, enda væri það skref að því stærra markmiði sem við höfum lýst.

Hvað varðar skólann á Reykjum er ég alveg sammála hv. þm. um að þar eru menn að mörgu leyti að vinna ákaflega gott starf. Ég held reyndar að þó að Rannsóknastofnun landbúnaðarins væri flutt með þessum hætti að Hvanneyri útilokaði það ekki áframhaldandi starf og þróun á þessu sviði á Reykjum. Allt vísinda- og rannsóknastarf í dag gengur út á samvinnu. Við eigum að nota aðstöðu og atgervi þar sem hægt er en ég held að hvað varðar þetta tiltekna mál skipti það svo miklu máli fyrir þróun landbúnaðarins og fyrir verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi í framtíðinni að við verðum að gera allt til að efla vaxtarsprota sem er að brjótast upp úr moldinni.