Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:33:25 (6404)

2004-04-15 14:33:25# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hv. þm. sé ekki glaður yfir því að það birtist þingheimi með þessum hætti hversu sterk tök hæstv. landbrh. hefur á hinum góða þingmanni Sjálfstfl. í Suðurk. Ég get hins vegar ekkert gert við því annað en stappa stálinu í hv. þm. og hvetja hann til að standa fast við skoðanir sínar. Hv. þm. sagði að það hefði verið ætlan sín að draga þessa hlið málsins inn í umræðuna. Honum tókst það svo sannarlega en hvað var það sem vakti fyrir honum með því að draga þetta inn í umræðuna? Var það að fá einhverja aðra til þess að segja B-ið sem hann vildi ekki segja sjálfur?

Ég tel að þegar menn hafa fært eins ágæt rök og hv. þm. fyrir því að flytja eigi þessar stofnanir yfir í annað ráðuneyti beri þeim eiginlega hálfgerð skylda til þess að undirstrika það með því að segja það skýrt og skorinort. Ég vænti þess að þegar málið kemur til 2. umr. komi hv. þm. og greini vafningalaust frá því hvað honum finnst um þetta efni.