Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:34:44 (6405)

2004-04-15 14:34:44# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Atvikin höguðu því svo að ég gat ekki fylgst með fyrri hluta umræðunnar fyrir hádegi í dag en hafði þó fullan áhuga á því. Ég kem því kannski svolítið utan frá inn í málið og bið þá velvirðingar á því. Ég hef ekki hugsað mér að halda langa ræðu en mér þykir nauðsynlegt að fá svör frá hæstv. landbrh. um ákveðna þætti málsins áður en 1. umr. um það lýkur. Hér er um flókið og viðamikið mál að ræða sem er eðlilegt að fái viðurhlutamikla umfjöllun í landbn. þingsins og jafnvel líka í hv. menntmn. því að ég er þeirrar skoðunar að hugleiða þurfi menntunarþáttinn í málinu alveg sérstaklega. Mér segir svo hugur að ákveðnir þættir í frv. um breytingu á lögum um búnaðarfræðsluna gætu verið að ganga á svig við þær almennu reglur sem við höfum sett okkur í háskólasamfélaginu og ef svo er er það afskaplega miður. Og ef vinna á málið hratt á þeim nótum sem hæstv. ráðherra óskaði eftir í flutningsræðu sinni held ég að það sé afskaplega mikilvægt að menntmn. komi að málinu til þess að við tryggjum samræmingu á milli háskóla landbrn. og háskóla menntmrn., að við búum til samhljóm á háskólastiginu. Ég held að menntmn. Alþingis sé best til þess fallin að leggja mælikvarða sinn á málið á skjótan og ábyrgan hátt. Ég óska því hreinlega eftir að það fari til skoðunar frá landbn. til menntmn. með þá þætti í huga sem ég hef rakið.

Við lestur þessara frv. virðulegi forseti, virðist manni örlítið skorta á að hæstv. ráðherra leggi fram skýrt afmarkaða stefnu eða markmið um menntunarmál landbrn. Ég verð að segja að mér finnst ákveðnir þættir í breytingunum illa undirbyggðir og vil ég t.d. nefna það sem hæstv. ráðherra leggur til, eins gott og það er, að auka tengsl háskóla landbrn. við atvinnuvegina, þá sé ég ekki að það þurfi að gera á kostnað starfsfólks og nemenda í skólunum. Ég geri því alvarlegar athugasemdir við það að hér skuli eiga að hverfa frá því að starfsmenn og nemendur hafi fulltrúa sína í háskólaráðinu og hefði kosið að hæstv. ráðherra skýrði það nánar hvers vegna hann leggur slíkt til og eflaust eru fleiri ræðumenn á undan mér búnir að koma inn á einmitt þetta atriði.

Það samræmist heldur ekki háskólavenjum að hæstv. ráðherra skipi rektor án tilnefningar. Ég vil að hæstv. ráðherra skýri það fyrir okkur í þessum sal við 1. umr. hvers vegna hann leggur til að svo verði gert því það er ekki í anda þess sem gert er í öðrum háskólum.

Síðan langar mig til að koma aðeins inn á það, þar sem ég er að fjalla um háskólaráðið, að menn horfi aðeins víðar yfir sviðið en virðist gert í þessum frv. Það eru ákveðin mál sem koma við sögu í landbúnaðarháskólunum, og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri kannski sérstaklega, sem varða byggðamál, skipulagsmál, náttúruverndarmál og önnur umhverfistengd mál. Ég spyr þá sjálfa mig hvort það gæti ekki verið efni a.m.k. til að hugleiða að umhvrn. ætti hér einhverja aðkomu eða stofnanir umhvrn. Mér finnst það efni sem vert er að hugleiða í þessu sambandi af því að landbúnaðarmálin eru umhverfismál og mér finnst að hugsa megi til þess þegar verið er að opna lög af þessu tagi og gera breytingar á þeim á þeim nótum sem hér er verið að gera, að við eigum að horfa vítt yfir sviðið og skoða tengslin á mjög breiðum grunni. Ég legg því til að nefndirnar skoði það aðeins að hér geti kannski verið hægt að undirbyggja enn frekar það öfluga starf sem fram fer í landbúnaðarháskólunum með því að tengja það inn á þau lög sem varða náttúruvernd, skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum, landnýtingu alla og jafnvel lög um hollustuhætti, sem eru lög sem varða umhvrn. og stofnanir þess.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í reglugerðarvaldið sem sett er fram í 15. gr. frv. um búnaðarfræðsluna. Þar kemur fram að landbrh. eigi að setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands og þá vil ég beina sjónum sérstaklega að rannsóknasviðinu. Mér þykir umhugsunarvert á hvern hátt því eru gerð skil í þessum frv. Ég held að það séu einar fjórar greinar í frv. sem fjalla um rannsóknasviðið. Það er auðvitað mjög mikilvægt að rannsóknasviðið eigi sér lagastoð og að sú skilgreining sem þar er til staðar sé sem öruggust. En þá spyr ég: Hvers konar reglugerð sér hæstv. landbrh. fyrir sér að hann muni setja varðandi starfsemi rannsóknasviðs landbúnaðarháskólans? Við vitum öll sem hér erum inni að það skiptir verulegu máli að rannsóknasvið háskóla sé öflugt og hafi mikið sjálfstæði. Þetta höfum við rætt hvað eftir annað undanfarin ár og það verður að tryggja kraft og sjálfstæði rannsóknasviðs landbúnaðarháskólans líka. Ég spyr hvers konar reglugerðarsetningu hæstv. landbrh. sjái fyrir sér og ekki óeðlilegt að eitthvað um það mál komi fram í ræðu hans þegar við ljúkum 1. umr.

Að lokum er kannski ein spurning sem leitar á mig og hún tengist því sem hv. þm. hafa verið að ræða rétt á undan mér, þ.e. varðandi stöðu Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins. Ég held að koma þurfi skýr svör við því hvaða stöðu þessir skólar komi til með að hafa eftir þær breytingar sem hér er verið að leggja til. Það er afar mikilvægt að hæstv. landbrh. svari þeirri spurningu áður en við ljúkum 1. umr. málsins.

Um leið og ég lýk máli mínu vil ég auðvitað segja að í landbúnaðinum eru miklir vaxtarbroddar. Þar er mikil gerjun í gangi og þar eru gífurleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að gera enn betur en við höfum verið að gera hingað til. Ég tel þá landbúnaðarháskóla sem starfa hér á landi hafa verið að leiða okkur það fyrir sjónir hversu óplægður akurinn í raun og veru er og hversu miklu meiri víðsýni við þurfum að sýna og viðhafa og þá kannski við sem hér erum, stjórnmálamennirnir, því að ég held að fólkið sem starfar á þeim akri sé með mjög spennandi hugmyndir í farteskinu og ég held að hlutverk okkar sé fyrst og fremst að búa til þann vettvang og það umhverfi að allar þær spennandi hugmyndir fái að blómstra.