Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:48:45 (6407)

2004-04-15 14:48:45# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. þau orð sem hann lét falla. Inntakið í ræðu hans var þess eðlis að ég hef tilhneigingu til að vera sammála því. Ég er sammála því að hér sé verið að gera góðan hlut, að setja Rannsóknastofnun landbúnaðarins undir landbúnaðarháskólann.

Spurningin sem kemur upp í hugann, sem mig langar til að hv. þm. svari af því að hann er þingmaður fyrir annan stjórnarflokkanna, er hvort við eigum að vænta þess að frumvörp af þessu tagi sem við hér fjöllum um komi í einhverjum mæli inn í þingið. Kannski svaraði hann mér með lokaorðunum sínum þar sem hann beindi í raun orðum sínum til annarra ráðherra í ríkisstjórninni. Hann hvatti til þess að þeir hugleiddu að gera slíkt hið sama og hæstv. landbrh. er að gera núna. Að hálfu leyti er hann búinn að svara mér. En mig fýsir að vita hvað hv. þm. og flokkur hans eru að gera í þessum efnum til að sjá til þess að samruni af því tagi sem hann gat um í ræðu sinni geti farið af stað.