Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:57:31 (6413)

2004-04-15 14:57:31# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, AKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að heyra hvað Vestfirðingurinn hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson getur oft verið ferskur, talað skýrt og skemmtilega og kallað á fjölmörg andsvör. Hann kvaðst ósammála nokkrum atriðum í ræðu minni fyrr í dag og honum er það að sjálfsögðu alveg frjálst. Hins vegar tel ég rétt að ég skýri fyrir honum hvað ég átti við með því að ég teldi að ekki hefði verið unnið nógu vel að frv. Í frv. eru ýmis meingölluð atriði sem hægt væri að skýra með betri vinnu. Ég treysti því að landbn. fari í þá vinnu og inni hana betur af hendi en gert hefur verið í frv. til þessa.

Varðandi það hvort Hólaskóli og Garðyrkjuskólinn að Reykjum séu settir skör lægra en Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í þessu frv., þá fer ég ekkert ofan af því. Það er skoðun mín. Ég tel það skömm og tel að verja þurfi meiri tíma í vinnu á frv. þannig að skólunum sé skapaður sá sess sem þeim ber. Ég fagna því hve góðar undirtektir sú hugmynd hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að flytja Veiðimálastofnun til Hóla, hefur fengið. Þar tel ég að hún eigi vissulega góðan sess vísan og yrði sambærileg lyftistöng fyrir þann háskóla og sameining RALA við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri verður væntanlega.