Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:17:36 (6419)

2004-04-15 15:17:36# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 1307, sem er jafnframt 850. mál, en um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum, nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Nánar tiltekið felur frv. þetta í sér breytingar á XIV. kafla laganna um Fiskræktarsjóð, en með því er áformað að færa ákvæði um stjórnsýslu Fiskræktarsjóðs í nútímalegt horf og stuðla að skilvirkari innheimtu gjalda í sjóðinn, svo og setja skýrari ákvæði um gjaldstofna þeirra gjalda sem renna í sjóðinn til að tryggja betra samræmi í stjórnsýsluframkvæmd og jafnræði gjaldenda.

Aðdragandi að samningu frv. var sá að hinn 1. júlí 2001 fól ég sem landbrh. þeim dr. jur. Gauki Jörundssyni, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Páli Hreinssyni, lagaprófessor í Háskóla Íslands, og Ingimar Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, að framkvæma heildarendurskoðun á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og semja nýtt frv. um sama efni. Hið nýja frv. til laga um lax- og silungsveiði er enn í vinnslu, en það er hins vegar niðurstaða nefndarinnar að aðkallandi sé að breyta ákvæðum XIV. kafla laganna um Fiskræktarsjóð sem fyrst og að ekki sé ástæða til að bíða með þær breytingar þar til heildarendurskoðun laganna er lokið. Fiskræktarsjóður var fyrst stofnaður með lögum nr. 38/1970, um breyting á þágildandi lögum nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði.

Meginmarkmið sjóðsins frá upphafi hafa verið að efla fiskrækt í landinu, m.a. með seiðasleppingum. Sjóðurinn er mikilvægt tæki í þágu rannsókna á laxfiskastofninum. Nú er svo komið að Ísland er eina landið við Norður-Atlantshaf sem ekki hefur orðið fyrir stórfelldu hruni í laxastofnum, en ástæður þess í öðrum löndum eru sumar þekktar en aðrar óþekktar. Miklu fé er nú varið í nágrannalöndum okkar til verndunar og viðhalds laxastofnum og ýmsar ráðstafanir verið gerðar til að tryggja að auðlindin glatist ekki. Ljóst er að mikilvægi Fiskræktarsjóðs hefur aukist mjög með tímanum eftir því sem áhrif manna á náttúru landsins hafa orðið meiri og er því mjög þýðingarmikið að lagaumgjörð um starfsemi sjóðsins sé nútímaleg og stuðli að skilvirkri starfsemi hans.

Ákvæði laga nr. 76/1970, um Fiskræktarsjóð, eru hins vegar orðin nokkuð úrelt og eru lögin því að hluta til ekki virk í framkvæmd. Með frv. þessu er stefnt að því að færa ákvæði laga um Fiskræktarsjóð í nútímalegt horf miðað við raunverulegt hlutverk sjóðsins í dag og að samræma ákvæði laganna hagsmunum og þörfum sjóðsins til þess að hann geti betur sinnt lögboðnu hlutverki sínu í þágu rannsókna á laxfiskastofninum.

Helstu breytingar sem frumvarpið hefur að geyma eru eftirfarandi:

1. Vinnslufyrirtækjum sem stunda raforkuvinnslu með vatnsorku verður gert að greiða 3 prómilla gjald af vergum tekjum af allri sölu á raforku. Samkvæmt gildandi lögum gildir sambærilegt ákvæði ekki um samninga sem gerðir voru við stórnotendur fyrir gildistöku laga nr. 50/1998, þegar ákvæði þetta var fyrst lögfest.

Hér á landi hafa nokkrir eldri samningar við stórnotendur verið undanþegnir gjaldtöku samkvæmt framangreindum ákvæðum. Ef frv. þetta verður að lögum hefur það í för með sér að greiða ber áðurnefnt gjald af allri raforkusölu án tillits til þess hvenær samningar voru gerðir. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða er þó gert ráð fyrir að raforkusala til stórnotenda samkvæmt þessum eldri samningum verði undanþegin gjaldskyldu út gildistíma samninganna, en eftir það verður öll sala raforku gjaldskyld.

Þetta þýðir, hæstv. forseti, að stóriðja verður að gjalda íslenskri náttúru gjald í framtíðinni, að vísu ekki hátt, en þó þýðingarmikið gjald sem mun hafa mikil áhrif á Fiskræktarsjóð, vísindastörfin í kringum það og fiskræktina. Hér er því hreyft stóru og þýðingarmiklu máli. Er þar farin sambærileg leið og í mörgum nágrannalöndum okkar, svo sem í Noregi og Svíþjóð.

2. Skýrari reglur eru settar um framtal, álagningu og innheimtu gjalda frá veiðiréttareigendum vegna leigutekna af veiði. Framkvæmd ákvæðisins er eftir sem áður á hendi stjórnar Fiskræktarsjóðs.

3. Skattstjórum verður falið að annast álagningu gjalda á vinnslufyrirtæki sem stunda raforkuvinnslu með vatnsorku. Þessi breyting helgast ekki síst af því að með raforkulögum nr. 65/2003 var komið á samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku og þessi starfsemi telst því ekki lengur til stjórnsýslu hins opinbera. Til að tryggja bæði skilvirka og samræmda innheimtu þessara gjalda er talið nauðsynlegt að fela skattstjórum álagningu og innheimtu þeirra, enda liggja upplýsingar um álagningarstofn gjaldsins fyrir í framtölum vinnslufyrirtækja til skattstjóra.

4. Veiðimálanefnd er gert að gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur Fiskræktarsjóðs sem gilda skulu fyrir sjóðinn næsta almanaksár.

Á fskj. með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv.

Hæstv. forseti. Með frv. þessu er stefnt að því að efla og styrkja stöðu Fiskræktarsjóðs. Ef frv. þetta verður að lögum mun Fiskræktarsjóði verða gert kleift að sinna betur hlutverki sínu í þágu rannsókna á laxfiskastofnunum. Það er von mín að frv. eigi eftir að hafa þau áhrif að stuðla með beinum eða óbeinum hætti að því að vernda og viðhalda þeirri miklu auðlind sem felst í laxfiskastofnunum okkar um ókomna framtíð. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt lengra að svo stöddu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.