Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:38:46 (6421)

2004-04-15 15:38:46# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Frv. þetta sem hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir á Alþingi er kannski góðra gjalda vert. Ég vil þó hefja mál mitt á að velta því svolítið fyrir mér hvort hér sé einhver misskilningur á ferðinni. Í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar áðan kom það í ljós eða alla vega heyrði ég ekki betur en að eitt af nýmælum í frv. væri að vinnslufyrirtæki sem framleiði raforku með vatnsorku eigi að greiða 3 prómilla gjald af vergum tekjum af allri sölu á raforku.

Frú forseti. Ég hef lögin um lax- og silungsveiðar fyrir framan mig og hef aðeins verið að glugga í þau. Ef við lítum á kafla sem fjallar um Fiskræktarsjóð, þá stendur þar klárlega í 98. gr. Ég sé að landbrh. hæstv. er líka með lagasafnið fyrir framan sig.

,,Tekjur sjóðsins eru:

a. Fjárveiting úr ríkissjóði.

b. Gjald af skírum veiðitekjum, 2%, er innheimtist af veiðifélögum.

c. Tekjuafgangur fiskeldisstöðva ríkisins, eftir ákvörðun ráðherra.

d. 3 prómill af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings.

e. Aðrar tekjur.

f. 3 prómill af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda.``

Ég fæ ekki betur séð en það nákvæmlega sama standi í þessu frv. Það væri svo sem allt í lagi að fá útskýringar á því hjá hæstv. ráðherra. Ég fæ ekki betur séð en hið eina nýja við þetta frv. sé í raun að herða eigi á innheimtu þessara gjalda. Gjöldin hafi alltaf verið til staðar, hafi verið til staðar mörg undanfarin ár en hins vegar eigi að herða innheimtu þeirra. Ég ætla ekki að setja neitt út á það.

Hins vegar verð ég líka að fá að lýsa því yfir, fyrst ég er hér, að það veldur mér vonbrigðum að sjá hversu litlar tekjur þessi sjóður hefur. Á yfirliti sem birtist í athugasemdum með frv. er ekki annað að sjá en þetta séu árstekjur sjóðsins, þ.e. innheimtugjald af veiðiréttareigendum og síðan af raforkustöðvum. Mér sýnist að talan sé árlega á bilinu 25--30 millj. kr. Það er satt best að segja ekki há fjárhæð sem verja á með þessum hætti til fiskræktar í landinu.

Aftast í umsögn frá fjmrn. stendur síðan að gert sé ráð fyrir að breiðari tekjustofn, hvað sem átt er við með því, geti skilað sjóðnum aukalega 11 millj. kr. tekjum árlega. Við erum því í mesta lagi að tala um 36--41 millj. kr. í tekjur í þennan sjóð á hverju ári. Það veldur mér satt best að segja nokkrum vonbrigðum. Ég minni á að í gær var ég með fyrirspurn til hæstv. landbrh. þar sem ég spurði hvort hann hygðist beita sér fyrir því að veita aukna fjármuni til fiskirannsókna á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. Hann svaraði því til að hann mundi í dag leggja fram frv. til laga með ákvæðum um tekjustofna fyrir Fiskræktarsjóð. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Verði það að lögum á þessu ári --- það mun auðvitað gerast á lengri tíma með því að öll vatnsorka borgi 3 prómill til sjóðsins eins og gert er í mörgum löndum og jafnvel meira t.d. í Noregi og Svíþjóð --- mun það hafa veruleg áhrif til þess að efla Fiskræktarsjóðinn. Hann verður nýttur á þessu svæði eins og mörgum öðrum.``

Ég fæ sem sagt, frú forseti, ekki séð að tekjur sjóðsins aukist neitt voðalega mikið og alls ekki um neitt sem skiptir verulega miklu máli. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að það þurfi að veita aukna fjármuni í fiskrækt á landinu. Stangveiði, bæði í vötnum og ám, er mjög mikilvægur tekjustofn fyrir byggðir landsins og mjög auðgandi fyrir mannlíf í landinu. Ég tel að við ættum að geta náð betri veiði úr vötnum og ám hér á Íslandi ef við sinntum þeim betur, sinntum rannsóknum og fiskræktarhlutverkinu betur en við höfum gert fram að þessu.

Það er svo sem gott og blessað að heyra hæstv. ráðherra lýsa því yfir að þetta sé mikilvæg auðlind og allt þar fram eftir götunum. En mér finnst einhvern veginn eins og það sé meira í orði en á borði.

Sem dæmi um þetta vil ég nefna mál sem ég rak augun í. Forsaga þess er sú að á hinu háa Alþingi, á 122. löggjafarþingi, á árunum 1997--1998 var lögð fram þáltill. þriggja þingmanna um endurreisn Þingvallaurriðans. Flutningsmenn voru Össur Skarphéðinsson, Guðni Ágústsson og Árni M. Mathiesen, allir þingmenn hér á þingi. Guðni Ágústsson var þá formaður landbn. þingsins. Fluttar voru snjallar ræður til að mæla með þessari þáltill. Ég hef þær allar fyrir framan mig og hef verið að lesa þær. Ég er í sjálfu sér alveg sammála þessari ályktun. Það var t.d. hamrað á því m.a. af hæstv. núverandi landbrh. að það hafi t.d. orðið eins og hann sagði í einni ræðu sinni, með leyfi forseta:

,,Alger kaflaskipti urðu í sögu Þingvallaurriðans þegar útfall vatnsins, Efra-Sog, var þvergirt og straumvatnið leitt um jarðgöng í Steingrímsstöð. Virkjunin gjöreyddi mikilvægasta stofninum sem hrygndi fyrir mynni og í efri hluta Efra-Sogs.``

[15:45]

Þetta er eflaust alveg rétt. Síðan mælir þáverandi hv. þm. sem formaður landbn. fyrir nál. um tillöguna og þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Segja má að hér sé hið merkilegasta mál á ferðinni og skal ég ekki draga úr því. En nú er mikilvægast að skipuð verði nefnd hinna vitrustu manna sem geri tillögur sem vonandi leiða af sér að við sjáum þau miklu auðæfi sem við áttum en höfum því miður misst, verða á ný að veruleika. Það eru mín lokaorð, hæstv. forseti, að ég bind miklar vonir við þessa þáltill. og að hún muni marka tímamót í baráttunni fyrir því að menn hvorki ofnýti né eyðileggi mikilvæg auðæfi. Ég hygg að takist hér vel til verðum við Íslendingar á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum til fyrirmyndar í veröldinni.``

Svo mörg voru þau orð. Og rétt á eftir var þingályktunin samþykkt:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns.``

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er þessi nefnd í dag? Hverjir sitja í henni? Hver var niðurstaða nefndarinnar, þeirrar nefndar sem skipa átti samkvæmt samþykkt sem gerð var á Alþingi hinn 3. mars árið 1998? Mér þætti mjög vænt um að fá skýr svör við því hjá hæstv. landbrh. Hann sat í þeirri ríkisstjórn sem átti að skipa þessa nefnd og hefur vonandi gert það, ég vona svo sannarlega að það hafi verið gert. Ég vil því fá að heyra skýr svör um hvað gerst hafi í málinu.

Annað sem ég vil fá skýr svör við er að nú eru liðin næstum þrjú ár síðan landbrh. fól þremur ágætum heiðursmönnum að semja nýtt frv. til laga um lax- og silungsveiði. Þau merkilegu lög sem voru samþykkt árið 1970 og mörkuðu tímamót og hafa varað alla tíð síðan áttu að fara í endurskoðun fyrir þremur árum. Það eina sem mér sýnist hafa komið út úr því er að nú á skatturinn að fara að innheimta skatt af raforkustöðvum vítt og breitt um landið. Það liggur fyrir í því frv. sem við höfum nú fyrir framan okkur. Það er allt og sumt sem komið hefur úr þeirri þriggja ára vinnu að því er ég best fæ séð.

Það væri því mjög gaman að fá að nota tækifærið núna til að fá að heyra það hjá hæstv. landbrh. hvað miðar störfum þessara manna við að endurskoða og semja nýtt frv. til laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

Ég held ég láti þetta duga í þessari umferð. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. landbrh., bæði hvað varðar nefndina um Þingvallaurriðann, sem átti að skipa fyrir mörgum árum, og eins hvað líður endurskoðun laganna um lax- og silungsveiði.