Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:48:18 (6422)

2004-04-15 15:48:18# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. sem hér liggur fyrir. Vafalaust gengur hæstv. landbrh. gott eitt til með því að styrkja Fiskræktarsjóð. Það hefði hins vegar hjálpað okkur mjög sem erum að ræða frv. hæstv. ráðherra ef því hefðu fylgt gleggri upplýsingar. Ég hefði gjarnan viljað sjá með hvaða hætti því fjármagni sem komið hefur inn í sjóðinn hefur verið varið á síðustu árum, til hvers konar verkefna og þess vegna til hverra. Sömuleiðis fæ ég ekki almennilega séð hverjar heildartekjur sjóðsins hafa verið því að það sem skortir inn í dæmið eru fjárveitingar ríkisvaldsins. Ber að skilja umsögn fjmrn. svo, frú forseti, að engar tekjur hafi komið til sjóðsins nema þær sem innheimtust frá veiðiréttareigendum og í formi gjalda frá vinnslufyrirtækjum?

Síðan vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hverju það sætir að þær upphæðir sem greint er frá í greinargerð með frv. hafa svo til ekkert breyst eða ákaflega lítið síðustu tíu ár. Árið 1993 er t.d. verið að innheimta frá vinnslufyrirtækjum 7 millj. kr. og það hefur aukist um rétt kvartmilljón þegar kemur fram á árið 2002. Þó er það svo að bæði hefur framleiðsla á raforku aukist á þessu tímabili og að því er ég hygg hefur verðið a.m.k. hangið í við verðbólgu. Kann að vera að gleymst hafi að greina frá því í greinargerðinni að hér sé um að ræða tölur sem eru á sama verðlagsgrunni?

Sömuleiðis finnst mér skrýtið að innheimt gjöld frá veiðiréttareigendum hafa ekki aukist nema um tæpar 3 millj. á tíu árum og þó vitum við að leigutekjur fyrir veiðirétt hafa stóraukist á þeim tíma í samræmi við miklar verðhækkanir sem orðið hafa á sölu stangveiðileyfa.

Þá langar mig að spyrja hvort rétt sé skilið, frú forseti, þegar ég skil 1. mgr. b-liðar í 1. gr. svo að nú sé verið að innheimta í fyrsta skipti 2% gjald af þeim sem hafa einhverjar smáræðistekjur af veiði í stöðuvötnum. Ég minnist þess ekki að við fyrri meðferð laga um þennan sjóð hafi það verið inni í lögunum. Tekjustofnar Fiskræktarsjóðs voru 2% gjald af hreinum leigutekjum. Ég hef alltaf litið svo á að þar væri um að ræða fyrst og fremst tekjur sem menn hefðu af því að leigja veiðirétt. Nú skil ég þá málsgrein sem ég vitnaði til þannig að jafnvel smábændur sem eiga tiltölulega litla veiði í stöðuvötnum sínum og hafa einhverjar tekjur af því að selja afla sinn tímabundið á ári hverju til verslana þurfi skyndilega bæði að fara að standa sérstök skil á tekjunum gagnvart Fiskræktarsjóði og jafnframt að borga 2% gjald. Er það t.d. svo að hæstv. landbrh. sem hefur verið mikill unnandi og stuðningsmaður bænda við Þingvallavatn, sem hafa haft þokkaleg búdrýgindi af því að veiða murtu á hverju einasta hausti áratugum saman, ætli nú að fara að heimta sérstakt 2% gjald af þeim tekjum sem þeir fá fyrir að selja hana hinni ágætu niðursuðuverksmiðju Ora, sem líka býr til niðursoðnar grænar baunir? 2% gjald af því, mér þykir það alveg með ólíkindum. (JÁ: Af baununum?) Nei, það er ekki svo, hv. þm. Jóhann Árælsson, að hæstv. landbrh. ætli að fara að innheimta sérstakt baunagjald, en það mætti og verður eflaust umhverfis Þingvallavatn kallað murtugjald, gjaldið og skatturinn sem hann er að fara að innheimta af sínum góðu kjósendum þar við vatnið.

Mig langar að spyrja hæstv. landbrh. hvort þarna sé um nýmæli að ræða, hvort það sé ekki rétt hjá mér. Og í öðru lagi hvort honum finnist það sanngjarnt að smábændur sem hokra að sínu og eiga erfitt uppdráttar oft og tíðum, eins og hæstv. landbrh. hefur verið manna hvatastur til að benda með réttu á, eigi nú skyndilega að fara að greiða 2% gjald af einhverri smáræðisveiði sem þeir hafa, þó að þeir dragi nokkrar bleikjur og urriða úr vötnum sínum og selji í búðir.

Ég rifja það upp, frú forseti, að til skamms tíma var á tveimur stöðum í landinu nokkuð markvisst átak um að aðstoða bændur við að koma slíkum afla á markað, bæði austur á fjörðum og eins norður í Skagafirði og þar um slóðir. Mér finnst sem hæstv. landbrh. sé hér að koma aftan að þeim smábændum sem vilja með einhverjum hætti reyna að nýta landið sem þeir tóku við af áum sínum og lifa af því. Mér finnst þetta ekki alveg fyllilega sanngjarnt.

Síðan langar mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé svo að þeir sem leigja veiðirétt sinn ekki til félaga, fyrirtækja eða einstaklinga sem nýta hann í formi stangaveiði heldur til félagasamtaka á borð við þau sem Orri Vigfússon stendur fyrir og kaupa upp veiðirétt til þess að reyna að draga úr veiðiálaginu þurfi líka að greiða 2% af slíkum tekjum. Mér fyndist það ekki rökrétt vegna þess að tilgangur frv. er að vernda og ýta undir fiskvernd og þetta fæli í sér sérstakan fiskverndarskatt í tilviki þeirra ágætu manna. Ég veit að hæstv. landbrh. á ekki í nokkrum vandræðum með að svara þessu því ég sé að hann hefur legið lengi yfir frv.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það að mér finnst ekki sanngjarnt ef hæstv. landbrh. ætlar með þessum hætti að vega að þeim smábændum sem leggja net út í sjó og vötn og veiða einhverja silungatitti og selja þá. Leggja á þá 2% gjald en láta Kárahnjúka og stóriðjurnar ekki greiða nema 3 prómill. Það er ekki mikið réttlæti í því en þetta er kannski réttlæti Framsfl. eins og hann er nú um stundir.

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að það hefði verið gott að fá yfirlit um með hvaða hætti tekjum úr Fiskræktarsjóði hefur verið varið í gegnum árin. Því það var auðvitað þannig til nokkurra ára að það voru fyrst og fremst vildarvinir ríkisvaldsins og ráðherrar, það var að vísu fyrir tíð núverandi ráðherra, sem gátu með einhverjum hætti önglað úr þessum sjóði og mörg dæmi um það og dæmi sem eru nærtæk okkur alþingismönnum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en ég býð í ofvæni eftir að hæstv. landbrh. komi með svör við þessum spurningum og ég veit að honum verður ekki skotaskuld úr því því hann þekkir frv. svo vel, bersýnilega.