Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:04:37 (6424)

2004-04-15 16:04:37# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., VF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Valdimar L. Friðriksson:

Frú forseti. Við ræðum um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði. Auknar styrkveitingar til fiskræktar eru að sjálfsögðu af hinu góða og í athugasemdum með frv. kemur fram að tekjur sjóðsins árið 2002 hafi verið um 24,5 millj. kr. auk fjárveitinga og annarra tekna sem ekki koma fram hér. Það er jafnframt gert ráð fyrir því að breiðari tekjustofn geti skilað sjóðnum aukalega 11 millj. kr. á ári.

Hlutverk Fiskræktarsjóðs er m.a. að efla fiskrækt í ám og vötnum, væntanlega laxfisks. Þá erum við fyrst og fremst að tala um seiðasleppingar. Seiðasleppingar eru kostnaðarsamar og geta verið ábatasamar ef vel tekst til. En til þess að styrkveitingunum sé vel varið er nauðsynlegt að skoða líka ákveðinn þátt, svokallaðar sjóræningjaveiðar, þ.e. netaveiðar á laxi við strendur landsins. Það er viðurkennt vandamál að þær eru iðkaðar t.d. á Vestfjörðum. Það væri fróðlegt að vita hvernig þau mál stæðu í dag. Er virkt veiðieftirlit í gangi til að hamla því að þegar laxinn fer að skila sér til baka eftir seiðasleppingu ári seinna úr hafinu að hann sé hreinlega fangaður í net rétt utan við strendur landsins? Þetta þarf vissulega að hafa í huga til að tryggja að þessir auknu peningar sem til stendur að setja í sjóðinn séu vel nýttir.