Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:17:42 (6429)

2004-04-15 16:17:42# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að gæta yrði jafnræðis á milli þeirra sem framleiða rafmagn. Svo er ekki. Þeir sem framleiða rafmagn með vatnsgufu borga ekkert gjald til Fiskræktarsjóðs. Þeir sem framleiða rafmagn með vatnsafli í ám sem enginn fiskur er í skulu hins vegar borga gjald til Fiskræktarsjóðs, eins og Kárahnjúkavirkjun. Hvar er jafnræðið á milli þeirra sem framleiða rafmagn?

Síðan sagði hæstv. ráðherra að ákveðinn þingmaður talaði með sama hætti og mín persóna. Hvað þýðir það eiginlega?

Þá sagði hæstv. ráðherra að þetta væri ekki skattur heldur gjald fyrir afnot af ánum til þeirra sem ættu þær eða til þjóðarinnar. Af hverju ekki til umhverfismála? Því þessar virkjanir trufla kannski mest umhverfissjónarmið. Af hverju er ekki lagður skattur á vatnaflsvirkjanir sem rynni til umhverfismála? Af hverju til veiðihúsa?

Það er á hreinu að í stjórnarskránni, sem allir hv. þm. hafa svarið eið að, eru ákvæði um að engan skatt megi leggja á né breyta né af taka nema með lögum. Ef veita á peninga úr ríkissjóði skal gera það með fjárlögum og ef veita á lán skal gera það með lánsfjárlögum. Mér finnst því frv. og þessi lög öll sömul meiða stjórnarskrána að þessu leyti.