Breyting á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:24:45 (6432)

2004-04-15 16:24:45# 130. lþ. 97.4 fundur 869. mál: #A breyting á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn# (reikningsskil) þál. 17/130, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Með umræddri tilskipun eru gerðar breytingar á tilteknum tilskipunum sem fjalla um reikningsskil félaga með takmarkaða ábyrgð félagsaðila. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja að samræmi sé milli tilskipana ESB um reikningsskil og alþjóðlega reikningsskilastaðla, svo og gerð og framsetningu á skýrslu stjórnar og skýrslu endurskoðenda. Í fjmrn. er nú unnið að innleiðingu gerðarinnar og undirbúningi lagafrv.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.