Samkeppnislög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:26:34 (6433)

2004-04-15 16:26:34# 130. lþ. 97.5 fundur 882. mál: #A samkeppnislög# (beiting samkeppnisreglna EES-samningsins) frv., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum, en það fjallar um beitingu samkeppnisreglna EES-samningsins. Frv. er að finna á þskj. 1340 sem er 882. mál þingsins.

Frumvarp þetta er byggt á reglugerð Evrópubandalagsins, nr. 1/2003 frá 16. des. 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir í 81. og 82. gr. sáttmálans, svo og bókun 4 með samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, og eru helstu efnisatriði þess eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að innlend samkeppnisyfirvöld og dómstólar fá heimild til að beita samkeppnisreglum EES-samningsins í heild sinni, þ.e. 53. gr. um ólögmætt samráð fyrirtækja, og 54. gr. um misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu, en þá heimild hafði áður aðeins eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Ákvæði 53. gr. geta m.a. snert samninga fyrirtækja þar sem kaup- eða söluverð er ákveðið eða mörkuðum skipt, en ákvæði 54. gr. t.d. þannig að beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar séu settir. Þá geta samkeppnisyfirvöld m.a. tekið ákvörðun um að hópundanþága á grundvelli 53. gr. eigi ekki við gagnvart tilteknu fyrirtæki.

Í öðru lagi er um að ræða virkari rannsóknarheimildir eftirlitsstofnunar EFTA. Eftirlitsstofnun EFTA öðlast heimild til húsleitar á heimilum stjórnenda fyrirtækja ef rökstuddur grunur er fyrir hendi um að mikilvæg gögn eða skjöl séu geymd þar. Slík heimild er þó háð samþykki innlends dómstóls. Ástæðan fyrir þessu íþyngjandi rannsóknarúrræði er sú staðreynd að stjórnendur fyrirtækja eru í auknum mæli farnir að geyma mikilvæg sönnunargögn um samráð eða misnotkun markaðsráðandi stöðu utan vinnustaðar.

Í þriðja lagi eykst hlutverk innlendra dómstóla. Til aðstoðar við beitingu samkeppnisreglna EES er samvinna innlendra dómstóla og eftirlitsstofnunar EFTA aukin. Dómstóll getur óskað eftir aðstoð ESA um beitingu ákvæðanna. Einnig er mögulegt fyrir innlend samkeppnisyfirvöld að aðstoða innlenda dómstóla. Samkeppnisyfirvöld geta þó komið að skriflegum eða, með leyfi dómsins, munnlegum athugasemdum.

Rétt er að taka það fram að enda þótt lögfesting þessa frv. hafi í för með sér miklar áherslubreytingar á beitingu samkeppnisreglna EES-samningsins er fremur ólíklegt að þessar reglur komi til með að hafa í raun mikil áhrif hér á landi. Það helgast af því að skilyrði fyrir beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins er að viðkomandi samningar eða samkeppnishamlandi aðgerðir fyrirtækja hafi áhrif á EES-svæðinu en ekki aðeins hér á landi, t.d. ef um er að ræða fyrirtæki annars vegar á Íslandi og hins vegar í Noregi. Ef áhrifin eru aðallega eða eingöngu hér á landi er samkeppnislögum nr. 8/1993 beitt í slíkum tilvikum.

Frú forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn.