Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:31:05 (6434)

2004-04-15 16:31:05# 130. lþ. 97.6 fundur 881. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (Stofnsjóður, framtakssjóðir) frv. 92/2004, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Með stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins árið 1997 var stigið veigamikið skref í að stuðla að arðbærri uppbyggingu á vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar með áhættufjármagni. Þegar sjóðurinn tók til starfa í ársbyrjun 1998 var mikil gróska í öllu nýsköpunarstarfi og almenn bjartsýni ríkti hjá frumkvöðlum og fyrirtækjum. Ný tækni var að ná fótfestu og nýjungar á sviði líftækni og upplýsinga- og fjarskiptatækni var mjög áberandi.

Á starfstíma Nýsköpunarsjóðs hafa orðið mjög miklar breytingar á starfsumhverfinu. Í byrjun var lítið framboð á fjármagni til nýsköpunar. Það fór ört vaxandi og í stuttan tíma var nánast um offramboð að ræða. Talið er að tilkoma sjóðsins hafi verið öðrum fjárfestum hvatning enda var mjög sótt í að fá Nýsköpunarsjóð með til þátttöku í álitlegum fjárfestingarkostum.

Frá miðju ári 2000 dróst hins vegar framboð á áhættufjármagni mjög mikið og hratt saman þegar í ljós kom að margar nýfjárfestingar töpuðust að fullu á fyrstu árum fyrirtækjanna þegar fór að reyna á gildi viðskiptahugmyndanna sem fyrirtækin byggðu á.

Í meginatriðum hafði þetta tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi urðu mörg ungra fyrirtækja gjaldþrota þegar framboð á þolinmóðu fjármagni var ekki lengur fyrir hendi. Í öðru lagi varð afkoma verðbréfa og hlutafjársjóða neikvæð ár eftir ár sem endurspeglaði beint slæma afkomu fyrirtækja og brostnar væntingar um framtíðarhorfur þeirra. Þessi þróun var alþjóðleg og var ekki bundin við Ísland. Afleiðing þessarar þróunar fyrir Nýsköpunarsjóð var sú að hluti af fjárfestingum hans í sprotafyrirtækjum töpuðust og ávöxtun eigin fjár hans varð neikvæð.

Þrátt fyrir almennan samdrátt í framboði á áhættufé til nýsköpunar ákvað Nýsköpunarsjóður engu að síður að brýnt væri að halda hjóli nýsköpunarinnar gangandi meðan stætt væri. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir sérhvert þjóðfélag og ekki síður okkar þjóðfélag að það sé ávallt til staðar og í gangi nýsköpun í atvinnulífinu. Með varúð var því haldið áfram að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum og þessari stefnu var haldið fram til ársins 2002. Frá þeim tíma hefur sjóðurinn ekki haft bolmagn til nýfjárfestinga en beint kröftum sínum að því að verja þær fjárfestingar sem hann hafði þegar ráðist í.

Frá upphafi hefur Nýsköpunarsjóður fjárfest í rúmlega 100 fyrirtækjum og á nú eignarhlut í rúmlega 70 fyrirtækjum. Hluti af þessu fjármagni hefur tapast en í nokkrum tilvikum hefur Nýsköpunarsjóður selt hlutafé sitt.

Þetta frv. hefur tvö markmið. Fyrra markmiðið er að bæta eiginfjárstöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins með því að eignir ríkisins í svokölluðum framtakssjóðum verði fjárfestar áfram í stofnsjóði Nýsköpunarsjóðs þegar þeir verða leystir upp. Síðara markmiðið er að heimila Nýsköpunarsjóði að leggja fé í sérstaka sjóði með öðrum framtaksfjárfestum og skapa þannig aukið fjármagn til nýrra fjárfestinga eins og hlutverk sjóðsins kveður á um.

Víkjum fyrst að fyrra markmiðinu sem er fjallað um í 1. gr. frv. Svokallaðir framtakssjóðir urðu til árið 1998 við útboð á 1 milljarði af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. til fjögurra fjármálastofnana. Hver þessara stofnana fékk 250 millj. kr. til fjárfestinga og lagði hver um sig 125 millj. kr. af eigin fé til viðbótar í samlagið. Útborgaðar einingar á að leysa upp 7--10 árum eftir að þær voru boðnar út, þ.e. á árunum 2005--2008, og rennur andvirði þeirra í ríkissjóð. Þessu fé skyldi varið til hlutafjárkaupa í því skyni að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga og hátækni.

Afkoma framtakssjóðanna hefur ekki farið varhluta af hinni almennu og neikvæðu þróun og hefur höfuðstóll þeirra allra rýrnað umtalsvert. Í þeim tilgangi að bæta eiginfjárstöðu Nýsköpunarsjóðs er gerð tillaga um að ríkissjóður feli Nýsköpunarsjóði áframhaldandi ráðstöfun þess fjármagns sem bundið er í framtakssjóðunum og það renni í stofnsjóð hans. Jafnframt verði binding fjárins í 7--10 ár felld niður svo unnt verði að koma á hagkvæmara rekstrarfyrirkomulagi og ná meiri arðsemi ef um það semst við núverandi vörsluaðila.

Um síðara markmiðið er fjallað í 2. gr. Það lýtur að því að skapa Nýsköpunarsjóði aukið ráðstöfunarfé til þess að hann geti betur sinnt hlutverki sínu. Það verður gert með því að veita honum heimild til þess að fjárfesta hluta af eignum sínum í sérstökum sjóðum með öðrum framtaksfjárfestum. Gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðir og aðrir langtímafjárfestar sjái sér hag að náinni samvinnu við Nýsköpunarsjóð um fjárfestingar í nýsköpun atvinnulífsins, ekki síst til þess að geta nýtt þá víðtæku þekkingu sem þar er að finna. Til þess að takmarka áhættu Nýsköpunarsjóðs er gert ráð fyrir að hlutdeild hans í þessum sjóðum verði ekki meiri en 30% af samanlögðu stofnframlagi þeirra aðila sem lögðu þarna til. Ef t.d. væri um 100 millj. kr. að ræða gæti Nýsköpunarsjóður ekki lagt fram meira en 30% eða 30 millj. kr.

Frú forseti. Ég tel að frv. þetta skýri sig að öðru leyti, en að sjálfsögðu verður fjallað um það í nefnd og nauðsynlegt að fara þar vel yfir málið og kalla til þá aðila sem unnið hafa að málinu og ræða við ýmsa um það hvernig menn sjá sjóðinn starfa til framtíðar. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn.