Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:52:23 (6438)

2004-04-15 16:52:23# 130. lþ. 97.6 fundur 881. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (Stofnsjóður, framtakssjóðir) frv. 92/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sem settur var á laggirnar fyrir nokkrum árum, upp úr 1997. Honum var ætlað að standa að nýsköpun í atvinnulífinu og veitt til hans umtalsvert fé. Síðan var sett fé í sérstaka sjóði, framtakssjóði, sem sérstaklega áttu að örva nýsköpun á landsbyggðinni. Eða þannig minnir mig að þetta hafi verið.

Öll þessi saga er frekar dapurleg, mjög dapurleg, frú forseti, og kannski ekki skrýtið í ljósi þess að mikið af þeim fyrirtækjum sem sett voru á laggirnar á þeim tíma sem sjóðurinn var stofnaður fóru á hausinn þegar netbólan sprakk og hugbúnaðarfyrirtækin fóru yfir um. Í sjálfu sér er ekkert um það að segja. Þeir aðilar sem fjárfestu hins vegar með eigin fé í þessum fyrirtækjum og töpuðu því hafa orðið illilega varir við að hafa tapað, finna það á eignum sínum.

Öðru máli gegnir um forstöðumenn og stjóra opinberu sjóðanna. Ég vænti þess að þeir hafi ekki orðið varir við að sjóðirnir hafi tapað, þess sér ekki stað í eignum þeirra og ekki einu sinni í launum þeirra, lífeyrisréttindum eða neinu. Þeir eru að því leyti ábyrgðarlausir og það er kannski einmitt það sem einkennir opinberan rekstur og segir manni að opinber rekstur eigi ekki að standa í áhættusömum atvinnurekstri. Það er ábyrgðarlaust.

Ég varaði við þessu á sínum tíma. Mér fannst í sjálfu sér óeðlilegt að embættismenn og opinberir starfsmenn, fólk sem gerist opinberir starfsmenn af því að það sækist í öryggi ríkisins, ættu sérstaklega að vinna á áhættumarkaði. Mér finnst ákveðin mótsögn í því. Nú er ekkert sem segir að þessum sjóð hefði reitt betur af þó að hann hefði verið í einkaeigu. Þó hygg ég að einkaaðilar sem hætta á að tapa eigin fé hefðu meira verið á tánum og kannski vakað fleiri nætur við að reyna að bjarga þeim fjárfestingum sem farið var í en þeir sem vinna sem opinberir starfsmenn og hafa allt sitt á þurru.

Ég tel mjög misráðið að ríkissjóður setji peninga í nýsköpun. Það sem ríkissjóður og löggjafarvaldið á að gera, hið háa Alþingi, er að búa nýsköpun þann ramma að nýsköpun þrífist. Nú er það svo að við erum með sérstakan skatt á nýsköpun, nokkuð háan skatt, þ.e. skattur fyrir að skrá hlutafélög. Við tökum miklu meira gjald af þeim fyrirtækjum sem eru skráð sem hlutafélög en það kostar að reka hlutafélagaskrá. Það er ekki annað en skattur á nýsköpun. Ég hef margoft bent á þetta. Þetta eigum við að sjálfsögðu að lækka.

Við eigum líka að skoða hvaða kvaðir við leggjum á ný fyrirtæki. Margir sem stofna fyrirtæki segja mér að þeir geri ekki annað fyrstu mánuðina og árin en að fá leyfi og heimildir og því líkt og borga gjöld hingað og þangað fyrir þessi leyfi. Þeir borga alls konar skatta, smáskatta og leyfisgjöld. Það er ekki beint nýsköpunarvænt. Mér finnst að hv. þingmenn eigi að fara í gegnum þetta.

Síðan má skoða það að það fólk sem lagt hefur fram mikla vinnu, háar fjárhæðir og tapað íbúðum sínum og annað slíkt í tengslum við nýsköpun fái jafnvel að vera skattlaust í smátíma á eftir, megi draga frá tapið. Það er ekki möguleiki núna. Það skal borga sín lán o.s.frv., vinna á fullu, borga skatta og síðan lánin sem stafa af tilraunum þeirra til nýsköpunar. Mér finnst að menn þurfi að horfa á umhverfi nýsköpunar.

Frú forseti. Þótt þetta dæmi hafi gengið illa er það ekki þar með sagt að öll nýsköpun hafi gengið illa. Mörg blómleg fyrirtæki sem eru sprottin af nýsköpun voru stofnsett á þessum tíma. Þar má t.d. nefna Íslenska erfðagreiningu, sem er í nýsköpun. Nefna má mörg önnur fyrirtæki, Össur og fleiri, sem eru orðin mjög öflug á alþjóðavísu. Það má nefna Kaupþing, sem líka er í nýsköpun á fjármálamarkaði. Mörg fyrirtæki hafa gengið vel en ég hygg að það sé ekki vegna stuðnings opinberra aðila við þau, þó að gerð hafi verið tilraun til þess að styðja eitt þeirra með ríkisábyrgð. Hins vegar tókst að afstýra því, þ.e. fyrirtækinu tókst að fá fyrirgreiðslu og lán án ríkisábyrgðar. Það er mjög jákvætt að mínu mati, frú forseti.

Ég held að ríkið og ríkisvaldið eigi ekki að stunda nýsköpun sjálft. Það á að búa til lagaramma sem hvetur til nýsköpunar, gerir hana auðveldari. Til þess þurfum við að fara í gegnum allt umhverfi nýsköpunar. Það væri kannski ágætt að hv. þingmenn æfðu sig í að stofna eitt og eitt fyrirtæki og sjá hvernig ferli það er.