Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:32:42 (6445)

2004-04-15 17:32:42# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara enn og aftur, Samband íslenskra sveitarfélaga hefur staðfest þetta. Fjárhagsstaða sveitarfélaga getur verið misjöfn af allt öðrum ástæðum en yfir flutningi grunnskólans. Mér fannst hv. þm. gera ráð fyrir að misjöfn fjárhagsstaða væri eingöngu vegna þess að grunnskólinn hefur verið fluttur yfir. Það er síður en svo. Sveitarfélögin fást við mörg og misjöfn verkefni sem kalla á fjármagn. Þau snúast ekki eingöngu um grunnskólann. Sem betur fer, eins og við mátti búast, hafa flest sveitarfélög staðið mjög vel að rekstri grunnskólans. Við megum ekki gleyma því að þegar sá yfirflutningur varð voru sveitarfélögin með mestan hluta af rekstrinum annan en kennaralaunin, sem þessi yfirflutningur snerist að mestu leyti um, en að auki stóð til einsetning skólanna.

Hv. þm. kom inn á það í ræðu sinni að vel hefði tekist til með verkefni hjá einstökum sveitarfélögum, málefni fatlaðra og heilsugæsluna, samanber t.d. sveitarfélagið Hornafjörð. Það er alveg hárrétt. Ég held að það sé tvímælalaust næsta skrefið í yfirfærslu verkefna að málefni fatlaðra færist til sveitarfélaganna. Þar er um nærþjónustu að ræða og við ættum að flytja sem mest af þeirri nærþjónustu sem við getum nær íbúunum. Sveitarfélögin eru mjög vel hæf til að takast á við það verkefni í tengslum við félagsþjónustuna sem þau reka nú þegar.