Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:05:27 (6450)

2004-04-15 18:05:27# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil einungis koma inn á það sem hæstv. ráðherra sagði, að hann vonaðist til þess að menn sæju hag í því að taka þátt í sameiningu sveitarfélaga og auka þannig þjónustu við íbúa svæðisins. Þar er meinið. Þeir sem hafa staðið gegn sameiningu sveitarfélaga í litlum hreppum hafa einmitt séð hag sínum betur borgið í litla sveitarfélaginu vegna sérstakra aðstæðna. Í ýmsum tilfellum hefur þetta verið þannig. Þar er kannski stór verksmiðja sem ríkið ákvað á sínum tíma að yrði þar og miklar tekjur miðað við fólksfjölda í viðkomandi hreppi. Þetta veldur því að menn sjá hag sínum betur borgið í litlu sveitarfélagi.

Að mínu viti er líklegt, ef menn reikna hag sinn áfram í fjármunum eins og þeir hafa gert, að menn geti áfram fundið það út að það sé betra að standa utan sameiningar en innan og að niðurstaðan verði sú að við sitjum uppi með nokkur sveitarfélög í landinu, ekki ætla ég að spá hvað mörg, sem af ýmsum ástæðum, þessum og öðrum, verða ekki með í sameiningu. Það mun þýða að minna af verkefnum ríkisins sem menn hefðu viljað flytja til sveitarfélaganna til að efla þau verða flutt til þeirra og að menn þurfi að fara í viðbótarátak sem er fólgið í því að hækka íbúalágmarkið í framhaldinu og taka sér til þess tíma sem mér finnst afar dýrmætur ef honum er sóað, vegna þess að þá sitjum við uppi með að gera sama hlutinn hvort sem er.