Lokafjárlög 2002

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:13:22 (6452)

2004-04-15 18:13:22# 130. lþ. 97.7 fundur 848. mál: #A lokafjárlög 2002# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er gleðiefni að við séum að ræða frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2002. Þar með höfum við tekið fyrir þriðja frv. til lokafjárlaga á þessu vorþingi, því áður höfum við fjallað um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000 og árið 2001. Ef fram heldur sem horfir ættum við að geta náð því marki sem að hefur verið stefnt að ræða lokafjárlög fyrir árið 2003 á haustdögum, en það er afar brýnt vegna þess að eins og segir í lögum um fjárreiður ríkisins, 45. gr., með leyfi forseta:

,,Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar.``

Því miður hefur þetta ekki tekist í þau þrjú ár sem ég nefndi áðan, en vonandi tekst að ná þessu lagaákvæði inn á haustdögum.

Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að nefna að í frv. til lokafjárlaga ársins 2000 kemur fram nokkurt misræmi miðað við ríkisreikning ársins 2000 og þess vegna er býsna erfitt að staðfesta ríkisreikning með þeim lokafjárlögum. Segja má að sá mismunur sem þar kemur fram haldi áfram vegna þess að staða stofnana er ekki rétt skráð í frv. til lokafjárlaga 2001 og í frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2002.

[18:15]

Því verður að segja að erfitt verður að samþykkja 3. gr. þessara frumvarpa þar sem segir að lög þessi öðlist þegar gildi og að ríkisreikningur fyrir árið 2002 sé þar með staðfestur. Þennan vanda þarf að leysa. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að fundin verði lausn á þessu nú á vordögum þannig að því markmiði verði náð sem ég tel að sé sameiginlegt okkur öllum, þ.e. að við getum náð að ljúka staðfestingu á ríkisreikningi með lokafjárlögum fyrir árið 2003 á haustþingi. Þá verðum við komin með þetta á rétt ról eins og nauðsynlegt er.

Í frv. sem við ræðum hér koma fram athyglisverðir hlutir á bls. 69 þar sem fjallað er um tillögur um ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok. Þær byggja á vinnureglum sem vinnuhópur á vegum fjmrn. og Ríkisendurskoðunar hefur fjallað um og samþykkt. Þær eru síðan útlistaðar þarna nokkuð nákvæmlega. Ég vona og mér sýnist svona við fyrstu sýn að hér sé flest til bóta. Það hefði hins vegar verið á margan hátt æskilegt ef fjárln. hefði fengið að fjalla um þessar tillögur áður en þær voru endanlega staðfestar og eftir þeim farið þannig að fullt samráð hefði verið á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins varðandi þær reglur.

Herra forseti. Ég vil nefna örfáa liði nú, en auðvitað munum við fjalla nánar um þetta í fjárln. Það er fyrst og fremst það sem segir í 2. tölulið um afgangsheimildir. Þar segir, með leyfi forseta:

,,2.1. Afgangsheimild liðar í árslok kemur til viðbótar fjárveitingum næsta árs hafi hún myndast með hagræðingu í starfseminni eða með flutningi verkefna milli ára.``

Herra forseti. Hér er á margan hátt afskaplega skýrt að orði kveðið. Þó veltir maður fyrir sér hagræðingunni, hvernig hún verður skilgreind. Það er eðlilegt að stofnun sem nær að hagræða fái að njóta þess og að ekki verði af henni dregið það fjármagn sem skapast þannig.

En í næsta tölulið á eftir, þ.e. tölulið 2.2, segir, með leyfi forseta:

,,2.2. Afgangsheimild fellur niður í árslok hafi verið dregið úr þjónustu frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum ...``

Þá veltir maður þessu fyrir sér í tengslum við hagræðinguna. Auðvitað geta ýmsar stofnanir ekki hagrætt í raun nema með því að draga úr þjónustu. Þannig að það verður þá væntanlega fjmrn. sem sest í það dómarasæti að meta hvort þarna hafi verið dregið úr þjónustu eða hagrætt. Hér held ég að það þurfi a.m.k. að vera klárt að allir skilji þetta á sama hátt þannig að þarna verði ekki misskilningur.

Ef við höldum síðan áfram í tölulið 2.3, þá segir, með leyfi forseta:

,,2.3. Afgangsheimild fellur niður ef sýnt þykir að kostnaður við verkefni hafi verið ofmetinn í fjárlögum eða þjónustutekjur vanmetnar.``

Vaknar nú enn einu sinni spurning um hvað átt sé við með ,,ofmetin í fjárlögum``. Hver ætlar að meta það hvort stofnunin hafi í raun og veru náð að hagræða og náð að ljúka verkefninu fyrir minni fjármuni eða hvort það hafi verið ofmetið fyrir þessu í fjárlögum. Þarna hljóta mjög mörg vafaatriði að koma upp. Ég held að brýnt sé að reyna að finna einhver viðmið sem hægt verði að miða við og m.a. út af þessu held ég að æskilegt hefði verið að við hefðum reynt að fara yfir þetta í sameiningu, þ.e. fulltrúar frá fjmrn. og Ríkisendurskoðun og fjárln. þannig að sambærilegur skilningur væri á öllum vígstöðvum varðandi hvaða merkingu menn leggja í þetta.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um frv. sem hér liggur fyrir. Við munum að sjálfsögðu fjalla nánar um það í fjárln. Ég endurtek aðeins það sem ég sagði áðan að ég vona að við náum að ljúka þeim þremur frv. til lokafjárlaga sem nú liggja fyrir fyrir lok þings í vor og að við náum síðan þeim rétta takti sem við hljótum öll að stefna að með því að fjalla hér um lokafjárlög fyrir árið 2003 á haustdögum samhliða því að við förum yfir ríkisreikning fyrir árið 2003.