Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:20:01 (6453)

2004-04-15 18:20:01# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um tónlistarsjóð.

Í frumvarpi þessu er lagt til að stofnaður verði tónlistarsjóður sem hafi það hlutverk að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra.

Menntamálaráðuneytið hefur um langt árabil veitt margvíslega styrki á sviði tónlistar af safnliðum í fjárlögum. Er þar um að ræða ferðastyrki til einstaklinga og hópa, styrki vegna einstakra verkefna innan lands og erlendis sem og tónlistarhátíða innan lands. Þá hefur ráðuneytið veitt starfsstyrki til hljómsveita af sérstökum fjárlagalið. Ráðuneytið hefur haft sér til ráðgjafar tónlistarnefnd sem skipuð hefur verið fulltrúum Félags íslenskra tónlistarmanna, Félags íslenskra hljómlistarmanna og ráðuneytisins.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að það fé sem menntamálaráðuneytið hefur haft til ráðstöfunar til þessara mála renni í þennan tónlistarsjóð og menntamálaráðherra úthluti úr sjóðnum að fengnum tillögum tónlistarráðs. Við gerð frumvarpsins hefur menntamálaráðuneytið haft mjög víðtækt samráð við fulltrúa úr íslensku tónlistarlífi. Jafnframt mun ég beita mér fyrir því að við fjárlagagerð verði framlög til tónlistarsjóðs aukin frá því sem nú hefur þegar runnið til þessara mála eftir öðrum leiðum. Frumvarpið kveður á um að tónlistarsjóði verði skipt í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild. Tónlistardeild veiti styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, svo sem til einstakra tónlistarmanna, hljómsveita, kóra og tónlistarhátíða. Markaðs- og kynningardeild sjóðsins veiti styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist hér á landi og erlendis.

Eins og áður segir er lagt til í frumvarpinu að sérstakt tónlistarráð geri tillögu til menntamálaráðherra um styrkveitingar úr tónlistarsjóði.

Menntamálaráðherra skipar ráðið til þriggja ára í senn og í því eiga sæti þrír fulltrúar. Samtónn, sem eru samtök allra rétthafa tónlistar í landinu, tilnefna einn, en tveir verða skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins.

Auk þess er gert ráð fyrir að tónlistarráðið veiti umsögn um tónlistarerindi sem menntamálaráðuneytið vísar til þess og getur það einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum til ráðuneytisins um tónlistarmálefni. Tónlistarráð mun þannig veita ráðuneytinu faglega aðstoð og stuðning, auk þess sem með tilkomu sjóðsins og ráðsins er kominn rammi um styrkveitingar ríkisins til þessa málaflokks.

Varðandi einstakar greinar frv., virðulegi forseti, vil ég benda á að með íslenskri tónlist í 1. gr. frv. er átt við tónlist sem samin er af íslenskum höfundum og tónlist sem flutt er af íslenskum flytjendum, jafnt atvinnu- sem áhugamönnum.

Þá hef ég hér að framan gert grein fyrir skipun þriggja manna tónlistarráðs til þriggja ára í senn, sem um er fjallað í 2. gr. En þar er jafnframt tekið fram að ekki sé heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa í ráðið meira en tvö starfstímabil í röð, nánar tiltekið í sex ár. Með því fyrirkomulagi er að mínu mati tryggð nokkuð eðlileg endurnýjun í ráðinu.

Í 3. gr. er fjallað um hlutverk tónlistarráðsins, sem er fyrst og fremst að gera tillögu til ráðherra um úthlutun fjár úr tónlistarsjóði. Sérstaklega er tekið fram í greininni að við það mat hafi ráðið heimild til að leita umsagnar fagaðila eftir því sem þörf þykir.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið efni frv. í meginatriðum. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.