Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:24:19 (6454)

2004-04-15 18:24:19# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni hið ágætasta mál því engum blandast hugur um að vel og myndarlega þarf að standa við bakið á íslenskri tónlistarsköpun og íslenskri tónlist af því að þetta er orðið að og hefur verið um langt skeið mikið veldi í íslenskri menningu. Mikil gróska er þar í gangi og þarf ekki að leita langt til að finna þeim orðum stað. Allir kannast við ævintýrin á erlendum vettvangi á bak við Björk, Sykurmolana og Sigur Rós, svo að einhverjir séu nefndir. Fjöldi íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita hyggur á mikla landvinninga á næstu árum og missirum. Það er erfitt fyrir unga hljómsveit sem kemur frá litlu landi í norðri að hasla sér völl utan lands án þess að geta sótt um í skilvirkan sjóð þar sem hún mætir skilningi og fær svör við sínum metnaði. Það er áreiðanlega til mikilla bóta fyrir tónlistarmennina og tónlistarlífið í landinu að sníða styrkjum til tónlistar þann stakk sem hér er lagður til. Engum blandast hugur um það. Áður hafa komið fram ágætar og metnaðarfullar tillögur til að standa við bakið á tónlistinni. Mörgum er enn í fersku minni metnaðarfull tillaga þáv. hv. þm. Magnúsar Árna Magnússonar sem lagði fram með mikla og metnaðarfulla hugmynd um landvinninga popptónlistarinnar.

En þetta er ágætisbyrjun á því að smíða tónlistinni ramma. Eins og kemur fram í frv., í fylgiskjali með umsögn frá fjárlagskrifstofu fjmrn., eru þetta um 20--30 millj. kr. sem hafa verið til ráðstöfunar og eru til ráðstöfunar til tónlistar og má fullyrða að það er ekki ofílagt. Heldur mætti nú efla þann stuðning ef eitthvað er. En við förum betur yfir það í síðari umræðu og í nefndarvinnunni.

Það sem ég vildi koma inn á efnislega í þessu máli og nefna sérstaklega er það sem segir í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar tónlistarráð til þriggja ára í senn. Í ráðinu skulu eiga sæti þrír fulltrúar. Samtónn tilnefnir einn, en tveir eru skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa í tónlistarráð meira en tvö starfstímabil í röð.``

Er þetta allt sumpart gott og blessað. Til skýringar og til að menn átti sig á því hvað Samtónn er þá segir í athugasemdum um 2. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Samtónn, sem eru samtök allra rétthafa tónlistar í landinu, tilnefna einn, en tveir verði skipaðir án tilnefningar`` --- eins og ég sagði áðan --- ,,og skal annar þeirra vera formaður ráðsins.``

Ég held að það séu mistök að gera ráð fyrir því að hæstv. menntmrh. skipi tvo af þessum fulltrúum. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að hann skipi fulltrúa í tónlistarráðið og þann sem gegnir formennskunni og oddahlutverki í tónlistarráðinu. En það væri örugglega málinu til framdráttar og bóta ef einn þessara þriggja fulltrúa væri skipaður af öðrum aðilum sem hafa með málið að gera. Þá kemur manni til hugar Félag íslenskra tónlistarmanna, félag þess fólks sem þetta frv. hefur með að gera. Það ætti að fá að skipa beint og milliliðalaust einn fulltrúa í tónlistarráðið til hliðar við þann sem Samtónn tilnefnir. Það eru miklu víðfeðmari samtök allra rétthafa tónlistar í landinu eins og ég gat um áðan. Nærtækt væri, að mínu mati, virðulegi forseti., að Félag íslenskra tónlistarmanna skipi einn af þessum þremur fulltrúum í tónlistarráðið og tryggi þar með jarðtenginguna inn í kreðsur tónlistarmanna þar sem gróskan er gríðarlega mikil. Til að tónlistarráð megi og geti sinnt störfum sínum sem best er mjög mikilvægt að það sé sem best tengt inn í raðir tónlistarmanna. Því legg ég til við hæstv. ráðherra og mun vinna að því í menntmn. þegar málið kemur þar til meðferðar að 2. gr. verði breytt í þessa veru, þ.e. að menntmrh. skipi einungis einn en ekki tvo. Þetta er fámennt ráð. Þar sitja einungis þrír. Það er alveg áreiðanlega tónlistarsjóðnum, tónlistarsköpun og tónlist í landinu almennt til framdráttar að tónlistarráðið sé sem best skipað og svari og spegli sem allra best þá þörf sem er fyrir opinbert fé í tónlist. Margir hafa uppi miklar efasemdir um að við eigum að verja opinberu fé með þessum hætti en ég er ekki á þeirri skoðun. Ég held að við eigum að verja opinberu fé til að styrkja listgreinarnar og ekki síst tónlistina þar sem miklir möguleikar eru á stórsigrum erlendis. Ég held að engum blandist hugur um þann gríðarlega ávinning sem íslenskt samfélag hefur haft af sigurgöngu söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur um allan heim síðasta áratuginn. Það er einstakt fyrir litla þjóð að eignast svo stóran listamann á sviði alheimsins eins og Björk er orðin. Ekki þarf að færa fyrir því mörg rök að fjármunum, t.d. 20--50 milljónum á ári, sem lagðir eru til að efla og styrkja tónlistina er ákaflega vel varið, sérstaklega ef eitt slíkt ævintýr fæðist þó það sé ekki nema á áratuga fresti. Það verður til þess að auka líkurnar á því að tónlistarmönnunum okkar gangi betur að spreyta sig á erlendri grund fái þeir til þess styrk og fjármagn, ráðgjöf og leiðsögn til að sem mest og best megi heppnast.

Vegna þess að útflutningur á tónlist er alveg sérdeild og sérsvið og tekur yfir sérstakan málaflokk ef svo má segja og er sérstakur angi stuðnings við tónlist þá dettur mér í hug að nefna það nú við 1. umræðu að í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

[18:30]

,,Frumvarpið kveður á um að tónlistarsjóði verði skipt í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild. Tónlistardeild veiti styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, svo sem til einstakra tónlistarmanna, hljómsveita, kóra og tónlistarhátíða. Markaðs- og kynningardeild sjóðsins veiti styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist hér á landi og erlendis.``

Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort það gæti ekki orðið til að efla sérstaklega stuðning okkar við tónlistarmenn sem hyggjast hasla sér völl erlendis að skipta sjóðnum upp í þrjár deildir og skilja alveg á milli styrkja sem við veitum til tónlistarmanna til að kynna sig erlendis, þ.e. að til verði þriðja deildin, að útflutnings- og kynningardeild erlendis verði sérstök deild í sjóðnum. Það ætti ekki að verða til að flækja neitt sérstaklega ,,infrastrúktúrinn`` í tónlistarsjóðnum en mætti verða til þess að ná markvissari og betri árangri einmitt í því að markaðssetja og kynna tónlistina erlendis sem er alveg sérkapítuli og miklu stærra og erfiðara mál en standa við bakið á þeim tónlistarmönnum sem eru að kynna sig hérna heima á Íslandi. Það er miklu auðveldara viðfangs að öllu leyti. En til að fjármögnuninni sem við veitum tónlistarmönnum til að kynna sig erlendis sé sem best varið þá er ég á þeirri skoðun að það sé alla vega skoðunarinnar virði að búa til þriðju deildina í tónlistarsjóðnum sem taki einungis til þess og njóti þá starfskrafta og ráðgjafar þeirra manna sem eru hvað fróðastir og best upplýstir um þessi mál og hvernig það gengur fyrir sig fyrir unga hljómsveit að fara utan og kynna sig þar. Margir hafa reynt það og það hefur oft endað með miklum skipsbrotum og fjárhagslegu tjóni fyrir viðkomandi tónlistarmenn. Margar sögurnar eru til um það enda er kannski oft lagt upp með lítil efni en háleit markmið. Þá þrýtur menn erindið og fjármagnið til að halda út erfiða dvöl erlendis til að berjast þar áfram og kynna tónlist sína. Ég held að því betur og markvissar sem við stöndum við bakið á tónlistarmönnunum okkar sem eru að leggja upp í slíkan leiðangur til að kynna sig á erlendri grund því meiri líkur eru á því að við náum árangri. Eins og ég sagði erum við ekki að biðja um mörg Bjarkarævintýri. Þó slíkt ævintýr yrði ekki nema tvisvar til þrisvar á öld væri miklum árangri náð, enda verður ábyggilega seint til þess árangurs jafnað sem sá mikli listamaður hefur náð erlendis. Sama má segja að mörgu leyti um hljómsveitina Sigur Rós sem á undanförnum missirum hefur farið mikla sigurgöngu víða um heim með sína einstöku tónlist.

Til að ná betri árangri sem ég efast ekki um að sé vilji okkar allra þá styð ég þetta mál hæstv. menntmrh. efnislega og heilshugar eins og ég sagði í upphafi máls míns. Ég held að þetta verði til þess að bæta enn stuðninginn við tónlistina, gera hann skilvirkari og aðgengið að honum eðlilegra og betra. Það er settur á þetta góður hattur sem gæti orðið til þess að efla tónlistarlíf í landinu enn þá frekar. En ef við tökum það sérstaklega útúr að efla sérstaklega og gera þeim listamönnum sem telja sig vera með slíka list í farteskinu að hún eigi erindi við önnur lönd og megi verða til þess að ná árangri þar þá þurfum við að búa til í þessu tónlistarráði sérstaka útflutningsdeild, þriðju deildina. Legg ég það til við hæstv. ráðherra og veiti því hér inn í umræðuna. Við munum að sjálfsögðu fara yfir þetta mál í menntmn. þegar þar að kemur og við 2. umr. síðar í vor.