Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:52:04 (6458)

2004-04-15 18:52:04# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:52]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel hugrenningar hv. þm. Helga Hjörvars og að mörgu leyti er ég sammála því sem hann sagði um hlutverk ríkisvaldsins, þ.e. að það eigi að vera rammagefandi eftirlitsaðili. En í þessu tilviki hef ég líka velt þessu mjög vel og gaumgæfilega fyrir mér. Ég stóð frammi fyrir þeim valkosti að hafa þetta fimm manna stjórn og fjölga þá fulltrúum frá tónlistarlífinu og setja þar af leiðandi meiri peninga í stjórnsýslu sjóðsins. Eins og hv. þm. hefur þegar komið inn á er ekki allt of mikið í lagt varðandi tónlistarlífið nú þegar þannig að ég vil frekar veita þessu til málaflokksins sem slíks, til verkefnanna sem slíkra heldur en að hafa allt of umfangsmikið batterí í kringum það.

Á hinn bóginn tel ég rétt, og það er hér með komið í lögskýringargögn, að hvort sem það verður ég eða framtíðarmenntamálaráðherrar landsins þá komi þeir til með að beita sér fyrir því að þeirra aðilar og fulltrúar þeirra komi til með að hafa fyrst og fremst hagsmuni tónlistarinnar að leiðarljósi um leið og þeir halda sig við þann ramma sem þeim er gefinn hverju sinni.