Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:53:29 (6459)

2004-04-15 18:53:29# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Frv. sem hér liggur fyrir hafa margir beðið eftir. Þetta hefur verið ein af skrautfjöðrunum sem ýmsir menntamálaráðherrar hafa sett í sinn hatt og nú hefur hæstv. núv. menntmrh. loksins lagt það fram.

En ég velti því fyrir mér þegar ég les frv. og umsögn fjmrn. hver sé munurinn. Það kemur skýrt fram að ekki er gert ráð fyrir því að fjárveitingar til þessara verkefna aukist. Það segir beinlínis í greinargerð að það fé sem menntmrn. hafi haft til ráðstöfunar til ýmissa verkefna sem hæstv. ráðherra taldi upp verði veitt í þennan sjóð. Það er engin aukning. Það kemur líka fram að áður hafði ráðuneytið ákveðna ráðgjafarnefnd sér til ráðuneytis og í henni voru fulltrúar Félags íslenskra tónlistarmanna, Félags íslenskra hljómlistarmanna og ráðuneytisins. Í frv. kemur fram, sem er ásteytingarsteinninn í þessari umræðu, að menntmrh. ætlar sér að hafa öll tök á málinu. Hæstv. menntmrh. ætlar sér að hafa meiri hluta í þessum sjóði.

Hver er þá munurinn? Það er ekki meira fjármagn. Það er engin breyting á því hverjir geta komið að veitingunni. Það er frekar að dregið sé úr því.

Ég skil þess vegna ekki hvers vegna verið er að leggja í þetta ferðalag nema hugsanlega upp á vonina um að einhvern tíma kunni að opnast nýjar gáttir í ráðuneytinu til þess að veita meira fé í þetta.

Þegar hæstv. ráðherra segir að ekki sé hægt að hafa fleiri fulltrúa í stjórninni vegna þess að þá væri batteríið orðið of umfangsmikið og dýrt þá beini ég því til hennar að skoða hvernig Menningarsjóður er uppbyggður. Þar er fimm manna stjórn og það er einn starfsmaður í ráðuneytinu sem sinnir líka öðru. Það er nú ekki mjög dýrt batterí.

Ég skora því á hæstv. ráðherra að taka þetta til endurskoðunar. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hún losi um tök sín á þessum sjóði.