Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:55:40 (6460)

2004-04-15 18:55:40# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er búin að fara gaumgæfilega yfir ástæður þess og röksemdir mínar fyrir því að ég tel réttast að hafa skipan tónlistarráðsins eins og lagt er fram í frv.

Varðandi framlögin til tónlistarsjóðsins sem slíks veit hv. þm. eins og við öll hér að það er Alþingi sem fer með fjárlagavaldið. Ég er búin að segja að ég muni beita mér sérstaklega fyrir því að framlög til þessa málaflokks, til tónlistarsjóðsins, verði aukin. Hér er verið að leggja fram rammafrumvarp þar sem lagt er til að fjármagn til tónlistarmála og tónsköpunar verði skilvirkara og skili sér betur til þeirra sem hlut eiga að máli, þ.e. tónlistarmannanna sjálfra. Við erum að skapa skýrara skilvirkara og markvissara kerfi utan um allt þetta utanumhald sem hefur verið fram til þessa í tónlistarmálunum. Fram til þessa hafa allir einmitt fagnað því að verið er að setja hér ákveðinn ramma.

Það er hárrétt sem hefur komið fram að við erum með um það bil 20--30 milljónir í framlög í dag. En við erum að undirbúa og vinna að fjárlagagerð fyrir næsta ár, fyrir árið 2005, og að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því enn og aftur, og ég ítreka það, að framlög til þessa sjóðs verði aukin þannig að hann komi til með að skila enn betra starfi innan tónlistarinnar, bæði innan lands sem erlendis.