Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:30:54 (6474)

2004-04-15 19:30:54# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt þegar við ræðum nýja tillögu til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára að farið verði í uppgjör eins og hægt er um hvernig til hafi tekist við fyrri framkvæmdaáætlanir, hvað við megum læra af þeim og hvað betur mætti fara. Það eigum við svo að nýta okkur nú þegar við afgreiðum nýja áætlun frá þinginu.

Ég hef lagt nokkra vinnu í að skoða síðustu jafnréttisáætlun og hvað hafi þar náðst fram. Ég verð að segja að mér finnst oft og iðulega gegnum þessar áætlanir í jafnréttismálum og framkvæmdaáætlanir að meiru sé lofað en efnt er. Það er verið að stefna að hinu og þessu, nefndir eru að skoða mál og gera áætlanir. Mér finnst oft að nokkuð vanti upp á hjá a.m.k. ýmsum ráðuneytum og er ég alls ekkert að kenna hæstv. félmrh., hvorki núv. eða fyrrv., um að ekki fylgi hugur máli. Mér finnst vera brotalöm á framkvæmdinni og mér finnst ábyrgðarsvið ráðherra oft illa skilgreint í þeim verkefnum sem þeir ætla að takast á við samkvæmt áætlununum. Það vantar raunverulega það sem ég kalla alla árangursmælingu á því hvernig til hefur tekist við framkvæmdaáætlanirnar.

Ég vil segja það núv. hæstv. félmrh. til hróss að mér finnst í þessari nýju áætlun koma fram mjög góð viðleitni af hálfu ráðherrans til þess að breyta um vinnubrögð. Það á að fara meira út í árangursmælingar og skilgreina ábyrgðarsviðin betur. Það á bæði við gagnvart jafnréttisáætlunum, gagnvart jafnréttisfulltrúum í ráðuneytum og gagnvart mælingum á því hvort við náum því markmiði sem sett er um fjölda kvenna í stjórnir, nefndir og ráð, svo ég nefni dæmi, og eins varðandi það sem við ræddum hér síðast, þ.e. launamálin, sem er ekki síst mikilvægt að ná fram.

Auðvitað er ekki hægt að búa við það þegar jafnréttis\-áætlanir hafa verið í gildi frá 1991 að enn séu til ráðuneyti sem ekki hafa gert neinar jafnréttisáætlanir. Það kemur fram í skýrslu sem lögð hefur verið hér fram að hvorki landbrn. né sjútvrn. hafa gert jafnréttisáætlanir. Ég tel að það gildi einnig um Hagstofuna. Fjmrn. er fyrst núna að vinna að jafnréttisáætlun þó að þetta hafi verið í gildi frá árinu 1991. Í jafnréttislögunum frá 1991 kemur fram að ráðuneyti með 25 starfsmenn eða fleiri eigi að setja sér jafnréttisáætlanir. Mér finnst lítil eftirfylgni í því og t.d. er ekki vitað hvað margar undirstofnanir ráðuneyta hafi sett sér jafnréttisáætlanir. Það er hvorki hægt að finna upplýsingar um það hjá Jafnréttisstofu né félmrn. þannig að það er ekkert utanumhald um það hvað margar undirstofnanir ráðuneytanna hafi sett sér jafnréttisáætlun. Hefur hæstv. ráðherra hugmynd um það hvað margar af 240 stofnunum hjá ríkinu, undirstofnunum ráðuneyta, hafa sett sér jafnréttisætlanir?

Ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið. Þetta er þó eitt af þeim mikilvægustu stjórntækjum sem við höfum, þ.e. að þessar áætlanir séu samræmdar, að ekki sé bara undir hælinn lagt hvernig þær eru úr garði gerðar hjá ráðuneytunum heldur þurfi ráðuneytin að fylgja ákveðnum staðli eða formi um hvernig þessar áætlanir eigi að vera og hvernig eigi að árangursmæla það hvernig hvert og eitt ráðuneyti hefur staðið sig. Það þarf að gera hæstv. fjmrh. miklu ábyrgari sem yfirmann yfir þeim samningum sem eru gerðir á opinbera markaðnum fyrir því að jafnréttislögum og jafnréttisáætlunum sé framfylgt. Ég veit að það er erfitt fyrir félmrh. einan og sér að bera ábyrgð á því að ráðuneytin framfylgi því sem hann er að leggja hér til. Jafnvel þarf að skoða það að forsrn. sé kannski meiri samræmingaraðili í þessu en verið hefur.

Það er margt athyglisvert sem fram kemur í skýrslum sem ráðuneytin senda Jafnréttisstofu. Í síðustu skýrslu t.d. --- ég held að þau eigi að gera þær á hverju ári --- er umhvrn. eina ráðuneytið sem getur þess í skýrslu sinni hve margar undirstofnanir hafi sett sér jafnréttisáætlanir. Það er til fyrirmyndar. Það ber að hrósa Siv Friðleifsdóttur fyrir það að hún hefur fylgt því eftir.

Þegar við lítum á fjölda kvenna í stjórnum, ráðum og nefndum þá hefur verið sett hvað eftir annað í gang átak til þess að ná ákveðnu markmiði. Menn hafa sett sér markmið um að 40% af hvoru kyni yrði í nefndum, stjórnum og ráðum. Í síðustu áætlun átti hlutur kvenna og karla að vera sem jafnastur. Samt kemur í ljós að hlutur kvenna hefur ekki aukist í heildina á síðustu tveimur árum. Það kemur í ljós að hlutfall kvenna hefur hækkað í fjórum ráðuneytum en staðið í stað í einu ráðuneyti og lækkað í sjö ráðuneytum.

Ég spyr t.d. um samgrn. Í haust var hlutur kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum hjá því 2% en hann var 14% 2001. Þar settu menn sér það markmið að ná á þessu tímabili 25%. En þetta var 2% í haust. Eitthvað hefur ýtt við ráðuneytinu vegna þess að þeir fóru þó upp í 12% í febrúar. Engu að síður er þetta mjög lágt.

Landbrn. er mjög lágt. Það var í 14% árið 2001. Það setti sér markmið að ná því á þessu ári í 40% en fór niður um 2%, niður í 12%.

Utanrrn. stendur sig líka mjög illa í þessu. Síðan eru ráðuneytin að rokka þetta á bilinu 20--30%. En öll hafa þau sett sér markmið um að ná þessu í 40--50%. Það er eitthvað að þegar við sjáum að þessu hafi verið framfylgt með þessum hætti. Hér skera sig úr sjútvrn, utanrrn. og landbrn. Vonandi er hæstv. landbrh. ekki enn við það heygarðshornið að halda að staða konunnar sé bara á bak við eldavélina, eins og hann sagði einu sinni. En það er engu líkara á þessum tölum en að hann sé enn þá þeirrar skoðunar. Þetta þarf að skoða.

Mér finnst þess gæta í skýrslu ráðherra að hann vilji fylgja málum öðruvísi eftir. Hann talar um eftirfylgni með framkvæmdaáætlun og í framkvæmdaáætluninni segir, með leyfi forseta

,,Til að tryggja það að raunverulegur árangur náist við framkvæmd verkefna þeirra sem hér eru tíunduð er mikilvægt að gerð sé úttekt á árangri ríkisstjórnarinnar. Skilgreina verður á hvaða hátt þetta verður gert, en æskilegt er að slík úttekt verði gerð um mitt framkvæmdatímabilið og aftur í lok þess.``

Þarna er vissulega nýjung á ferðinni sem ber að fagna.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég á eftir að ræða nokkur atriði sem snúa að framgangi þessarar tillögu og ýmislegu sem í henni er og málsmeðferð sem ég hef ákveðna skoðun á. Ég kem því bara aftur á mælendaskrá og nýti seinni ræðutíma minn í það.