Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:43:07 (6477)

2004-04-15 19:43:07# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:43]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það ágæt hugmynd hjá hv. þm. að Alþingi verði með einhverjum hætti gerð grein fyrir þeirri úttekt sem við ræðum hér um að fari fram á miðju tímabilinu. Ég mun beita mér fyrir því að svo verði, hvort sem það verður í sölum Alþingis eða gagnvart félmn.

Hv. þm. vitnaði líka til aðferða Svía við að uppfræða ráðherra í ríkisstjórn um aðferðafræði og gildi jafnréttishugsjónar. Hv. þm. hefur sjálfsagt eins og ég átt samtöl við fyrrum ráðherra jafnréttismála Svía, Margaretu Winberg. Hún lýsti því með mjög skemmtilegum hætti í fyrirlestri í Norræna húsinu sl. haust, hæstv. forseti, hvernig hún nánast í líkingamáli tók ráðherrana á hné sér og las þeim pistilinn. Kannski er það eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur í samfélagi okkar, hæstv. forseti, þ.e. að hefja þá fræðslu sem hér er um rætt upp á hæstu stig. Ég tel að það sé eitt af því sem við þurfum að hafa verulega í huga, þ.e. uppfræðsla og umræða og það er einmitt þess vegna sem ég, hæstv. forseti, sagði í inngangsræðu minni að ég fagnaði þeirri umræðu sem hefði átt sér stað um jafnréttismál á undanförnum dögum, vikum og mánuðum.